Vegna viðvarandi tafa í framleiðslu og siglingum frá Asíu vegna faraldursins ákvað golfverslunin Golfskálinn að birgja sig upp af golfboltum í vetur til að eiga örugglega nóg til þegar golfarar þessa lands stefna skóm sínum út á golfvöll nú í vor.
Hens Henttinen, annar eigenda verslunarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið að pantaðar hafi verið hálfs árs birgðir af boltum.
„Ég held að ástandið verði betra nú í sumar en í fyrra. Það verður samt örugglega skortur á einhverjum tegundum. Við erum vonandi í góðum málum, en það þarf ekki nema ein verksmiðja að lokast útaf Covid til að allt fari í baklás,“ segir Hans.
Hann segir að öllum gámum sem hann átti von á í mars hafi nú verið seinkað til maí.
Hans segir að til dæmis hafi vinsælasti boltinn, Super Soft frá Callaway, verið ófáanlegur hjá framleiðanda í einn og hálfan mánuð síðasta sumar vegna lokunar á einni verksmiðju. „Það ættu samt allir að fá bolta við sitt hæfi. Margir taka ástfóstri við ákveðna bolta og geta því átt erfitt með að skipta um tegund.“
Hans segir að vandamálin í aðfangakeðjum heimsins snúi einnig að fleiri golfvörum, enda hafa vinsældir íþróttarinnar vaxið mikið í faraldrinum. „Það hefur verið mikil seinkun á kylfum frá mörgum framleiðendum af ýmsum Covid-tengdum ástæðum. Það þarf t.d. ekki nema skaft að vanta í eina kylfu til að heilt golfsett sé ekki fáanlegt í einhvern tíma.“