VEX I, framtakssjóður í stýringu hjá VEX, sem keypti nú í desember allt hlutafé í Opnum Kerfum og hluthafar upplýsingatæknifélagsins Premis, hafa undirritað samning um að sameina félögin og eignarhald þeirra.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Þar segir að samanlögð velta félaganna árið 2021 hafi verið rúmlega fimm milljarðar króna og EBITDA rúmlega 300 milljónir.
Rekstur félaganna skiptist í tvær megin stoðir; vélbúnaðarsölu og rekstur og hýsingu tölvukerfa. Í sameinuðu félagi verða rúmlega 120 starfsmenn með starfsstöðvar bæði í Reykjavík og á Sauðárkróki.
Hluthafar félagsins eftir sameiningu verða VEX I, Fiskisund og félög í eigu starfsmanna. Sameiningin er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.
„Fyrirhuguð sameining við Premis gerir okkur kleift að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu, breikka vöru- og þjónustuframboð og auka enn frekar áherslu á öryggismál sem sífellt verða mikilvægari í rekstri félaga,“ er haft eftir Ragnheiði Harðar Harðardóttur, forstjóra Opinna Kerfa í fréttatilkynningunni.
„Við höfum sérhæft okkur í að reka tölvukerfi fyrirtækja. Tölvuumhverfi þeirra er að verða flóknara og fleiri fyrirtæki sjá hagræði í að útvista tölvurekstri sínum til aðila sem sérhæfa sig í slíkum rekstri. Sameinað félag mun verða leiðandi á þessu sviði og mun bjóða upp á enn betri þjónustu og öruggara umhverfi sem er mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf,“ er haft eftir Kristni Elvari Arnarssyni, forstjóra Premis.