„Míla ehf. hefur gengist undir þá kvöð „að félaginu sé skylt að halda tilteknum þjóðhagslega mikilvægum fjarskiptanetum, ásamt þeim búnaði og kerfum sem nauðsynleg eru fyrir virkni eða kerfisstjórn þeirra, að öllu leyti í íslenskri lögsögu og undir íslenskum lögum. Rekstur slíks búnaðar og kerfa skal einnig fara fram í íslenskri lögsögu, þ.m.t. umsjón og eftirlit með virkni og ástandi fjarskiptanetanna.“
Þetta kemur fram í samantekt um samning íslenska ríkisins og Mílu ehf. sem barst Morgunblaðinu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sl. miðvikudag, um mánuði eftir að blaðið spurðist fyrir um málið. Samningurinn var undirritaður 13. desember 2021 af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og stjórn Mílu ehf.
Með samantektinni var svarað fyrirspurn Morgunblaðsins sem send var samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu 16. desember 2021. Ríkisstjórnin fól því ráðuneyti að leiða viðræður við Símann hf. um leiðir til að tryggja að starfsemi Mílu ehf. samrýmdist þjóðaröryggishagsmunum yrði fyrirtækið selt. Sem kunnugt er kom fram í tilkynningu þriggja ráðuneyta í desember að í samningnum væru atriði sem vörðuðu viðskiptahagsmuni Mílu ehf. og yrði hann því ekki gerður opinber. Því var spurt um almenn ákvæði samningsins sem ekki vörðuðu viðskiptahagsmuni. Málaflokkurinn færðist svo á milli ráðuneyta.
Fram kemur í samantektinni að með þjóðhagslega mikilvægum fjarskiptanetum sé átt við „tiltekna hluta innlendra fjarskiptaneta Mílu, sem teljast mikilvægir með tilliti til almannahagsmuna og þjóðaröryggis, sem og þann tækja- og hugbúnað sem nauðsynlegur er til reksturs og virkni viðkomandi fjarskiptaneta“.
Mat stjórnvalda er að mikilvægt sé, til að tryggja aðgengileika og samfellda virkni þessara fjarskiptaneta, að búnaður og rekstur þeirra sé jafnan í íslenskri lögsögu og lúti íslenskum lögum.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.