Tryggingafélagið Sjóvá segir að fullyrðingar Félags íslenskra bifreiðaeigenda, þar sem Sjóvá var sökuð um að rifta samningi um vegaaðstoð vegna gagnrýni FÍB á félagið, séu rangar.
„Samningur Sjóvá við FÍB um að veita vegaaðstoð hefur verið í gildi í 15 ár, eða frá árinu 2007 og á þeim tíma hefur FÍB oft stigið fram með gagnrýni á störf félagsins. Aldrei hefur það haft áhrif á samstarfið. Það að FÍB skuli gera tímasetningu uppsagnar að fréttamat nú kemur okkur afar spánskt fyrir sjónir,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
„Ekki er hægt að álykta annað en að stjórnendur Sjóvár hafi sagt viðskiptunum upp til að refsa FÍB fyrir gagnrýni á 5 milljarða króna greiðslur til hluthafa tryggingafélagsins. Uppsögnin barst í lok október, aðeins fjórum vikum eftir að FÍB birti áskorun til Sjóvár um að skila ofteknum iðgjöldum til viðskiptavina frekar en láta þau renna í vasa hluthafa,“ sagði í tilkynningu frá FÍB fyrr í dag.
Sjóvá segir í svari nú síðdegis að vegaaðstoð Sjóvár snúist um að bregðast hratt og örugglega við þegar viðskiptavinir þess séu með straumlausa bíla eða sprungin dekk.
„Á þeim markaði eins og öðrum ríkir samkeppni. Með það að leiðarljósi var samið við annan aðila um samstarf með vegaaðstoð og samningi við FÍB sagt upp í kjölfarið. Þessi breyting snýst eingöngu um að veita viðskiptavinum Sjóvá bestu þjónustu sem völ er á hverjum tíma. Sjóvá þakkar FÍB fyrir 15 ára samstarf.“