Fjármálaráðherra hefur lagt fyrir ríkisstjórn tillögu um að framlengja svokallaða almenna viðspyrnustyrki fyrirtækja um fjóra mánuði. Munu þeir ná til síðastliðins desembermánaðar og út mars. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs af framlengingunni nemur 500 milljónum á mánuði.
Þetta staðfestir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra í samtali við mbl.is.
„Við höfum verið að horfa á þessa mynd frá því við vorum í fjárlagagerðinni og veltum fyrir okkur hvað við ættum að vera með umfangsmiklar aðgerðir á árinu 2022. Við töldum, eins og málin blöstu við okkur þá að það væru rök fyrir því að nú myndum við láta úrræðin renna sitt skeið. Við sýndum fram á það með gögnum og m.a. því hversu mjög hafði dregið úr ásókn í þessar stuðningsaðgerðir,“ segir Bjarni en bendir á að forsendur hafi breyst með mikilli útbreiðslu Ómíkron-afbrigðis veirunnar.
„Þá hertum við aðgerðir að nýju. Þá töldum við mikilvægt að standa með veitingaþjónustunni í landinu því hún er með skertan opnunartíma, hefur búið við hólfaskiptingar og þetta er einn sá geiri sem hefur farið hvað verst út úr þessu fyrir utan skemmtistaðina sem hafa á köflum getað stólað á lokunarstyrkina.“
Hann bendir á að almenna úrræðið varðandi viðspyrnustyrkina hafi runnið út í nóvember síðastliðnum og síðan þá hafi verið til athugunar hvort þyrfti að framlengja það.
„Á ríkisstjórnarfundinum í morgun var ég að tilkynna að við metum að það þurfi að gerast. Þess vegna mun ég leggja fyrir þingið frumvarp um að það verði framlengt.“
Segir Bjarni að fyrir þessari ákvörðun liggi ýmsar forsendur en að Ómíkron-afbrigðið sé ljóslega farið að bíta.
„Það sem er að bætast í sarpinn hjá okkur er að á fyrstu dögum janúarmánaðar þá eru áhrifin af ómíkron að koma fram. Þau eru ekki að stofna efnahagsbatanum í hættu en við sjáum ákveðna breytingu t.d. í kortaveltunni sem er töluvert lægri en hún var orðin í desember og er t.d. lægri en í upphafi árs 2019. Sömuleiðis, ef það er einhver mælikvarði, að þá er hreyfanleiki fólks á höfuðborgarsvæðinu lítill. Við erum með um 25 þúsund manns í einangrun eða í sóttkví. Fólk er miklu minna á ferðinni og okkur sýnist á tölum frá því í janúar að það séu um 20% þeirra sem gögnin ná til heima allan daginn,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.
Aðspurður segir hann ráðuneytið gera ráð fyrir að framlenging úrræðisins gæti kostað allt að 500 milljónir á mánuði eða 2.000 milljónir í allt. Mun sú fjárhæð leggjast ofan á þá 10 milljarða króna sem greiddir hafa verið í viðspyrnustyrki hingað til.
Í minnisblaði sem Bjarni lagði fram á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun og mbl.is hefur undir höndum kemur fram að þessir 10 milljarðar hafi verið greiddir til 1.800 rekstraraðila. Auk þess eigi enn eftir að afgreiða 400 umsóknir sem Skatturinn standi nú í bréfaskriftum við umsækjendur um.