Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brimi, en hann mun taka formlega til starfa 1. ágúst. Greint er frá þessu í tilkynningu frá félaginu.
Hlutverk Sveins verður að skapa tækifæri til verðmætaaukningar í starfsemi og nærsamfélagi Brims og leiða í framkvæmd stefnu félagsins á sviði nýsköpunar, vöruþróunar og loftslagsmála. Viðfangsefni hans er að gæta að virðisauka í öllum starfsþáttum félagsins og heildarhagsmunum Brims til lengri tíma. Segir í tilkynningunni að Brim stefni að aukinni samvinnu við íslensk og alþjóðleg fyrirtæki, háskóla og rannsóknarstofnanir á sviði sjálfbærrar nýtingar hráefna og vistvæns rekstrar í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Sveinn Margeirsson er með doktorspróf í iðnaðarverkfræði og hefur lokið stjórnunarnámi við Harvard Business School. Sveinn hefur starfað sem sjálfstæður ráðgjafi á sviði nýsköpunar og stefnumótunar, einkum tengt sjávarútvegi og verðmætasköpun í landbúnaði. Hann gegndi starfi forstjóra, sviðsstjóra og deildarstjóra hjá Matís en þar er unnið að nýsköpun og verðmætaaukningu i matvælaiðnaði. Þá hefur Sveinn verið sveitarstjóri Skútustaðahrepps frá 2020.
Í störfum sínum hjá Matís var Sveinn meðal annars í forsvari fyrir örsláturhúsaverkefni, en Matís hafði skoðað möguleikann á slíkri slátrun í tengslum við verkefni sem miða að því að koma landbúnaðarvörum frá framleiðendum til neytenda með beinum hætti, en slíkt gengur jafnan undir nafninu beint frá býli.
Komst málið í umræðu eftir bændamarkað á Hofsósi í Skagafirði þar sem meðal annars var selt kjöt frá bænum Birkihlíð, en lömbum hafði verið slátrað í samstarfi við Matís og var það gert í samræmi við verklag sem Matís hafði lagt til að gilti um örsláturhús. Matvælastofnun var hins vegar ekki á því að reglum hefði verið fylgt, innkallaði kjötið og kærði Svein til lögreglu vegna málsins. Var að lokum gefin út ákæra, en Sveinn var að fullu sýknaður í héraðsdómi.
Eins og fyrr greinir var Sveinn forstjóri Matís, en honum var sagt upp störfum í desember árið 2018. Samkvæmt fundargerðum stjórnar, sem mbl.is fékk aðgang að árið 2019, mátti sjá að stjórnin var ekki einróma um uppsögnina og var ástæða uppsagnarinnar sögð trúnaðarbrestur, en deilt var um hvort Sveinn hefði upplýst stjórnina um heimaslátrunarverkefnið. Var bókun um umræðu um verkefnið meðal annars tekin úr fundargerð áður en þær voru samþykktar.