Landsbankinn hefur stofnað nýjan styrktarsjóð, Sjálfbærnisjóðinn. Markmið sjóðsins er að styðja verkefni sem stuðla að sjálfbærni og hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.
Við fyrstu úthlutun mun sjóðurinn styðja sérstaklega við verkefni sem snúa að orkuskiptum. Alls verður úthlutað 10 milljónum króna úr Sjálfbærnisjóðnum á hverju ári.
Sjóðurinn tengist tveimur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þ.e. um aðgerðir í loftslagsmálum og um nýsköpun og uppbyggingu.
„Við viljum leggja okkar af mörkum til að þróa lausnir sem flýta orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti yfir í orkugjafa með lágt kolefnisspor. Sjálfbærnisjóðurinn er ekki síst ætlaður nemendum og sprotafyrirtækjum. Loftslagsmálin eru helsta áskorun samtímans og við viljum styðja við góðar hugmyndir og verkefni sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið okkar.
Á þessu sviði liggja gríðarlega mörg tækifæri til nýsköpunar. Við erum í stöðugri framþróun, hvort sem það snýr að sjálfbærri fjármögnun, grænu vöruframboði eða í fjölbreyttum stuðningi okkar við samfélagið. Sjálfbærnisjóðurinn styður vel við stefnu okkar um Landsbanka nýrra tíma og við þurfum öll að leggjast á eitt til að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum,“ er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans í tilkynningunni.
Sjálfbærnisjóðurinn kemur til viðbótar við árlega náms- og samfélagsstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans. Alls verða því veittar 31 milljón króna árlega úr Samfélagssjóði og Sjálfbærnisjóði til stuðnings verkefna sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Að auki styrkir bankinn fjölbreytt verkefni um land allt, m.a. á sviði mannúðarmála, lista og menningar, menntunar og íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Stefnt er að því að fyrsta úthlutun úr Sjálfbærnisjóðnum fari fram í vor. Opnað verður fyrir umsóknir í byrjun mars og verður nánar auglýst síðar.