Stoðtækjafyrirtækið Össur hagnaðist um 8,4 milljarða króna (66 milljónir dollara) á nýliðnu ári. Áttfaldaðist hagnaðurinn milli ára en hann nam 1 milljarði króna (8 milljónir dollara) árið 2020. Sala fyrirtækisins jókst um 11% milli ára. Nam hún tæpum 92 milljörðum króna (719 milljónum dollara). Snýst þróunin við frá fyrra ári þegar sala dróst mikið saman sökum útbreiðslu kórónuveirunnar.
EBITDA af rekstri fyrirtækisins var 21% og jókst talsvert frá árinu 2020 þegar hún reyndist 15%.
Heildareignir Össurar voru 159,3 milljarðar króna (1,2 milljarðar dollara) í árslok 2021 og höfðu vaxið um 32 milljarða milli ára. Eigið fé félagsins nam 80 milljörðum króna (626,6 milljónum dollara) á sama tíma.
Fyrirtækið gerir ráð fyrir að sala muni aukast um 6-9% í ár miðað við ársniðurstöðuna 2021.
Þetta er síðasta ársuppgjörið sem Jón Sigurðsson kynnir fyrir hönd Össurar. Hann lætur af starfi forstjóra þann 1. apríl næstkomandi eins og greint hefur verið frá. Við starfinu tekur Sveinn Sölvason, fjármálastjóri fyrirtækisins.