„Ég hef tekið eftir því á samfélagsmiðlum að margir eru búnir að skipta frá Spotify yfir á aðrar veitur. Það er bara besta mál og ég sé ekkert vandamál við þessar umræður og deilur. Ef eitthvað er þá held ég að þetta gæti orðið upphafið að því að veitnamarkaðurinn verði aðeins heilbrigðari,“ segir Eiður Arnarsson, tónlistarmaður og framkvæmdastjóri Félags hljómplötuframleiðenda.
Mikil umræða hefur verið um stöðu streymisveitunnar Spotify síðustu daga eftir að Neil Young óskaði eftir því að öll tónlist hans yrði fjarlægð af veitunni. Sú ósk var sett fram eftir að ekki var orðið við kröfu hans um að hlaðvarp Joes Rogans yrði tekið þar út en hann er sakaður um að dreifa falsfréttum um bóluefni við kórónuveirunni.
Rogan er einn þekktasti hlaðvarpsstjórnandi í heimili með 11 milljónir hlustenda á hvern þátt en Spotify gerði 100 milljón dollara samning við hann árið 2020 um einkarétt á birtingu. Sú staðreynd hefur komið við kaunin á mörgum tónlistarmönnum sem telja sig ekki bera mikið úr býtum í viðskiptum við Spotify.
Spotify er vinsælasta tónlistarveita heims með 381 milljón notenda í hverjum mánuði og 172 milljónir áskrifenda. Á Íslandi hafa allt að 98% alls streymis verið í gegnum Spotify síðustu misseri.
Margir neytendur virðast ætla að nýta sér þessa umræðu um Spotify sem spark í rassinn til að róa á önnur mið. Þær tvær veitur sem flestir virðast sýna áhuga eru Apple Music og Tidal. Sú síðarnefnda hefur einmitt nýverið tekið upp svokölluð Fan Centered Royalties undir áskriftarleiðinni Tidal hifi plus.
„Sumum finnst að Spotify hafi villst af brautinni og ég deili þeirri skoðun. Ég sá að bæði Tidal og Apple Music voru með Neil Young og Joni Mitchell á forsíðunni hjá sér í morgun. Eðlilega, svona virkar samkeppnin,“ segir Eiður.
Hann bendir þó á að flestar stærstu veiturnar greiði sama hlutfall af tekjum til tónlistarrétthafa, eða 70%. Skiptingin er svo ákveðin „pro rata“ eða þannig að hvert spilað lag fær skerf í samræmi við hlut sinn í heildinni. Það þýðir að því fleiri sem spilanirnar eru, þeim mun lægri greiðsla fæst fyrir hverja spilun.
Hins vegar getur áðurnefnd nýbreytni hjá Tidal bætt umhverfið að mati Eiðs. „Það hafa margir kallað eftir þessari aðferð og flestum þykir hún sanngjörn. Þá fer þitt áskriftargjald einfaldlega þangað sem þú ert að hlusta en dreifist ekki á stóra listamenn á borð við Billie Eilish. Peningaslóðin líkist því sem var þegar þú fórst út í búð og keyptir þér plötu.“
Eiður segir að gerðar hafi verið rannsóknir á því fyrir hverja það komi sér vel að taka upp umrætt greiðslufyrirkomulag. „Það eru annars vegar „lókal“ listamenn í hverju landi fyrir sig og hins vegar listamenn sem eru aðeins fyrir utan meginstrauminn. Þeir sem hlusta mest hlusta á það vinsælasta og því renna peningarnir að stærstum hluta í þá átt í hefðbundna fyrirkomulaginu.“