Landsbankinn hagnaðist um 30 milljarða

Hagnaður Landsbankans jókst mikið á milli ára.
Hagnaður Landsbankans jókst mikið á milli ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsbankinn hagnaðist um tæplega 30 milljarða króna á síðasta ári samanborið við 10,5 milljarða króna árið á undan. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Heildareignir bankans jukust um 165,6 milljarða króna á milli ára, eða 11%,  og námu í árslok 2021 alls 1.730 milljörðum króna. Árið á undan voru eignirnar 1.564 milljarðar króna.

Eigið fé Landsbankans er nú 283 milljarðar króna og jókst það um 9,5% milli ára. Það var 258 milljarðar árið á undan.

Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er 26,6%

Arðsemi eiginfjár 10,8%

Eins og fram kemur í tilkynningu bankans var arðsemi eiginfjár á síðasta ári 10,8% eftir skatta en markmið bankans er að arðsemi eiginfjár verði að lágmarki 10%. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans jukust um 24% á milli ára, einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum, að því er segir í tilkynningunni.  

Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði er 39,5% og hefur aldrei verið hærri, eins og segir einnig í tilkynningunni.

Þá segir í tilkynningu bankans að bankaráð muni leggja til við aðalfund að greiddur verði 14,4 milljarða króna arður til hluthafa vegna ársins 2021. Verði þessi tillaga samþykkt muni arðgreiðslur á árunum 2013-2022 samtals nema um 160,6 milljörðum króna.

Rekstrartekjur 62,3 milljarðar

Rekstrartekjur bankans á árinu 2021 námu 62,3 milljörðum króna samanborið við 38,3 milljarða króna árið áður. Hreinar vaxtatekjur voru 39 milljarðar samanborið við 38,1 milljarð króna árið á undan. Hreinar þjónustutekjur voru 9,5 milljarðar samanborið við 7,6 milljarða króna á árinu 2020.  Aðrar rekstrartekjur voru 13,9 milljarðar króna samanborið við neikvæðar rekstrartekjur upp á 7,5 milljarða króna á árinu 2020.

Viðsnúningur í virðisbreytingu útlána

Viðsnúningur varð í virðisbreytingu útlána milli ára og voru þær jákvæðar um 7 milljarða króna á árinu 2021 samanborið við neikvæðar virðisbreytingar upp á 12 milljarða króna árið 2020. Í tilkynningunni segir að viðsnúninginn megi rekja til þess að betri horfur séu í efnahagsmálum og áhrif kórónuveirufaraldursins á útlán bankans séu minni en áður hafi verið gert ráð fyrir.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Býr yfir miklu eigin fé

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningunni að rekstur bankans hafi gengið vel á árinu 2021. „Arðsemi bankans var 10,8% sem er í samræmi við okkar markmið og telst vera gríðarlega góður árangur, sérstaklega ef litið er til þess að bankinn býr yfir miklu eigin fé, eða um 283 milljörðum króna, og er eiginfjárhlutfallið töluvert umfram kröfur eftirlitsaðila. Tekjur hafa aukist en umbætur í rekstri hafa leitt til aukinnar skilvirkni og kostnaður hefur haldist stöðugur mörg undanfarin ár. Á árinu jukust þjónustutekjur töluvert umfram markmið, en sá árangur skýrist einna helst af auknum verðbréfaviðskiptum og góðum árangri í eignastýringu. Við komum að nokkrum árangursríkum hluta- og skuldafjárútboðum á árinu og Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans sá m.a. um frumútboð Síldarvinnslunnar, sem heppnaðist mjög vel,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK