Daglegum notendum Facebook fækkaði undir lok síðasta árs í fyrsta sinn í 18 ára sögu samfélagsmiðilsins.
Að sögn móðurfyrirtækis Facebook, Meta Networks, fækkaði notendunum í 1,929 milljarða á síðustu þremur mánuðum ársins úr 1,930 milljörðum í ársfjórðungnum þar á undan.
Fyrirtækið varaði einnig við því að hægst hafi á vexti þess á sama tíma og samkeppni hafi aukist, meðal annars frá TikTok og YouTube, auk þess sem auglýsendur hafi auglýst minna en áður, að sögn BBC.
Hlutabréf í Meta féllu í framhaldinu um yfir 20% í kauphöllinni í New York. Þetta þýðir að heildarvirði hlutabréfa félagsins lækkaði um 200 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 25.700 milljörðum íslenskra króna.
Hlutabréf í öðrum samfélagsmiðlum á borð við Twitter, Snap og Pinterest, féllu einnig.
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta og stofnandi Facebook, segir að vöxturinn hafi dregist saman vegna þess að notendur, sérstaklega þeir sem eru ungir að árum, hafi farið yfir til samkeppnisaðila.
Meta, sem er eigandi næststærsta auglýsingasvæðis heims á eftir Google, sagði einnig að breytingar á friðhelgisstillingum í kerfi Apple hafi haft sín áhrif, sem gerir auglýsendum erfiðara um vik að koma vörum sínum á framfæri.