Ákveðið hefur verið að Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO og fyrrum forsætisráðherra Noregs verði næsti seðlabankastjóri Noregs. Hann keppti um stöðuna við dr. Idu Wolden Bache, aðstoðarseðlabankastjóra.
Norska ríkisútvarpið greindi frá þessu rétt í þessu.
Mikið hefur gengið á í norskum fjölmiðlum síðustu vikur vegna skipunarferlisins og hafa stjórnmálamenn blandað sér af hörku í umræðuna. Hefur gagnrýni einkum beinst að Jens Stoltenberg, pólitískum bakgrunni hans og tengslum við æðstu valdamenn landsins, ekki síst Jonas Gahr Støre, núverandi forsætisráðherra.
Stoltenberg var áður forsætisráðherra Noregs á árunum 2000-2001 og aftur 2005-2013. Árið 2014 tók hann við embætti framkvæmdastjóra NATO en skipunartími hans þar rennur út síðar á þessu ári. Hann var formaður Norska Verkamannaflokksins á árunum 2002-2014.
Stoltenberg lætur af embætti framkvæmdastjóra NATO þann 1. október næstkomandi. Hann mun setjast í stól bankastjóra eftir það en þó liggur ekki fyrir hvort það verði fyrr en um næstkomandi áramót. Í millitíðinni mun Wolden Bache verma sætið.