Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, hefur að eigin frumkvæði óskað eftir því að láta af störfum hjá sjóðnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sjóðsins.
Huld mun gegna starfi sínu þangað til að lokið hefur verið við ráðningu nýs framkvæmdastjóra, en starfið verður auglýst á næstu dögum. Hún hefur starfað hjá sjóðnum í fimm ár.
„Þetta hefur verið áhugaverður og gefandi tími en nú hef ég ákveðið að fara á önnur mið. Ég er mjög þakklát fyrir tímann hjá sjóðnum og fyrir samstarfið við starfsmenn, stjórn, ráðuneyti og öflugu félögin í sterku eignasafni sjóðsins. Ég óska þeim öllum góðs gengis í framtíðinni og tel að framtíðin sé björt í íslensku nýsköpunarumhverfi,” er haft eftir Huld í tilkynningunni.