Icelandair tilkynnti í dag lánveitendum og íslenska ríkinu um að félagið hygðist segja upp lánalínu með ríkisábyrgð sem verið hefur í gildi síðan í september 2020. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu sem félagið birti rétt í þessu.
Í fréttatilkynningu frá Icelandair segir að uppsögnin muni taka gildi 15 dögum eftir daginn í dag í samræmi við skilmála línunnar. Fyrirtækið undirritaði hinn 15. september 2020 samninga við Íslandsbanka, Landsbankann og íslenska ríkið um allt að 120 milljóna bandaríkjadala lánalínu með 90% ábyrgð ríkisins, en henni var ætlað að vera lánveiting til þrautavara sem myndi tryggja félaginu nauðsynlegt aðgengi að lausafé ef neikvæð áhrif heimsfaraldursins drægust úr hófi.
Í tilkynningunni segir að ábyrgð ríkisins á lánalínunni hafi verið nauðsynlegur þáttur í að ljúka endurskipulagningunni, og að hún hafi gert félaginu kleift að varðveita þekkingu og viðhalda nauðsynlegum innviðum til að geta brugðist hratt við og hafið uppbyggingu félagsins um leið og ástandið myndi batna í heimsfaraldrinum.
„Vel hefur gengið í uppbyggingu félagsins undanfarna mánuði eftir krefjandi tíma síðastliðin tvö ár síðan Covid faraldurinn skall á og var fjárhagsstaða félagsins sterk í árslok 2021. Þessi sterka staða mun undirbyggja þá sókn sem framundan er og styðja við metnaðarfulla flugáætlun félagsins á árinu 2022,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningunni að það sé ánægjulegt að geta tilkynnt um uppsögnina tæpum átta mánuðum á undan áætlun og þar að auki án þess að á hana hafi reynt. „Línan og ábyrgð ríkisins á henni voru nauðsynlegur þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu sem tókst með samstilltu átaki allra helstu hagaðila félagsins. Þrátt fyrir að neikvæð áhrif faraldursins á starfsemi okkar, sérstaklega á fyrri hluta ársins, fluttum við 1,5 milljón farþega á síðasta ári og jukum flugframboð í 65% af því sem það var á árinu 2019,“ segir Bogi Nils m.a. í tilkynningunni.
„Samhliða uppbyggingu leiðakerfisins þéttum við raðirnar á ný og réðum til okkar hátt í eitt þúsund starfsmenn á árinu. Nú þegar flugfélög og ferðaþjónusta færast nær eðlilegri starfsemi á ný, er ég þess fullviss að við hjá Icelandair höfum það sem þarf til að ná meginmarkmiði okkar í kjölfar faraldursins – að koma félaginu í sjálfbæran rekstur,“ segir Bogi Nils að lokum.