N1 endurgreiðir viðskiptavinum mismuninn

Bensínstöð N1.
Bensínstöð N1. mbl.is/Eggert Jóhannesson

N1 Rafmagn hefur ákveðið að endurgreiða þeim viðskiptavinum sem komu til félagsins í gegnum þrautavaraleið stjórnvalda þann mismun sem var á auglýstum taxta og þrautavarataxta frá upphafi.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

En eins og mbl.is hef­ur fjallað um var aug­lýst lista­verð hjá N1 Raf­magn 6,44 krón­ur en rukkað var um 11,16 krón­ur.

Fram kemur að félagið hafi tekið fyrst við sem sölufyrirtæki til þrautavara 1. maí 2020 en enginn munur hafi verið á auglýstum taxta til heimila og þrautavarataxta til heimila fram til mars 2021. Endurgreiðslan á því við um tímabilið 1. mars 2021 til 31. október 2021 og getur heildarupphæðin numið allt að 40 milljónum króna.

Harma hækkunina

Þegar hefur verið endurgreitt til viðskiptavina fyrir tímabilið 1. nóvember 2021 til 31. desember 2021.

„Það hefur verið ósk N1 Rafmagns að finna sanngjarna niðurstöðu í máli félagsins sem söluaðili til þrautavara, hratt og örugglega. Leitað var til Orkustofnunar, sem hefur umsjón og eftirlit með þrautavaraleiðinni, um leiðsögn hvað það varðar. Þar sem Orkustofnun hefur ekki enn birt félaginu niðurstöður sínar eða gefið svör við þeim spurningum sem lúta að stöðu N1 Rafmagns sem orkusali til þrautavara, þykir nauðsynlegt að koma til móts við þrautavaraviðskiptavini félagsins eins fljótt og kostur er með endurgreiðslu á uppgefnu tímabili. Um leið er beðist velvirðingar á ofangreindu misræmi í verðlagningu og munu allir viðskiptavinir sem koma í gegnum þrautavaraleið færast á lægsta taxta félagsins hér eftir,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að N1 Rafmagn hafi verið fyrsta sölufyrirtækið til að sinna hlutverki orkusala til þrautavaraleiðar stjórnvalda. Frá byrjun hafi verið erfitt að átta sig á umfangi og kostnaði sem fylgir því að afla orku fyrir þennan hóp viðskiptavina. Því hafi þurft að kaupa dýrari raforku á skammtímamarkaði til að mæta eftirspurn.

„Í mars 2021 brá félagið á það ráð að hækka þrautavarataxta í samræmi við verð á skammtímamarkaði og túlkun N1 Rafmagns á reglugerð um sölufyrirtæki til þrautavara. N1 Rafmagn harmar að hafa hækkað þrautavarataxtann án þess að leita fyrst annarra leiða til að veita öllum viðskiptavinum sama verð og auglýst er,“ segir í tilkynningunni.

Ætla að læra af málinu

Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, að frá því að N1 Rafmagn hafi fyrst verið valið sölufyrirtæki til þrautavarna hafi meðalverð á skammtímamarkaði hækkað um 75%,

„Frjáls raforkumarkaður fyrir neytendur er enn að mótast eins og ljóst er af því að íslenskir neytendur skipta síður um raforkufyrirtæki en neytendur í löndum sem við berum okkur saman við. Það er ætlun okkar hjá N1 Rafmagni að keppa á íslenskum raforkumarkaði, neytendum til hagsbóta. Við gerðum mistök, öxlum ábyrgð á þeim og munum læra af þessu máli. Við munum halda ótrauð áfram að bjóða landsmönnum upp á samkeppnishæft raforkuverð og hvetjum jafnframt neytendur til að bera saman verð og velja sér raforkusala sjálfir á þeim grunni,” segir Hinrik Örn í tilkynningunni.

N1 Rafmagn kallar í tilkynningunni eftir því frá stjórnvöldum að reglugerð varðandi þrautavaraleið verði skýrð enn frekar og endurskoðuð sem fyrst með það að markmiði að fleiri neytendur velji sér raforkusala sjálfir með upplýstari og gagnsærri hætti en nú er og mistök sem þessi endurtaki sig ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK