„Svolítið gaman að vekja upp nei kallinn“

„Þetta er aldrei öruggt, maður þarf vera svolítið á tánum …
„Þetta er aldrei öruggt, maður þarf vera svolítið á tánum og fylgjast með,“ segir Ívar Örn.

Atvinnuleysi blasti við Ívari Erni Sverrissyni leikara í upphafi kórónuveirufaraldursins fyrir tveimur árum síðan. Nú, ári eftir að hann opnaði reiðhjólaverkstæði í Osló og tveimur árum eftir að hann byrjaði að möndla með hjól, hefur hann haft í vinnu hjá sér fólk af níu þjóðernum og hefur fyrirtækið vaxið svo hratt að hann leitar sér að meðeiganda.

mbl.is ræddi við Ívar þegar hann var nýbúinn að opna verkstæðið, Ivars Sykkelsjappe eða Hjólasjoppu Ívars, í fyrra. Þá var hann að safna fyrir ýmsum tækjum og tólum og vonaðist til þess að geta í framtíðinni ráðið til sín fleira starfsfólk. Það gekk aldeilis eftir og voru fjórir starfsmenn hjá honum í vinnu í sumar þegar mest lét en hjólaviðgerðabransinn er nokkuð árstíðabundinn í Osló af veðurfarslegum ástæðum. Þá stefnir Ívar á að sex manns starfi hjá verkstæðinu þegar mest lætur í sumar.

„Það var svolítið ógnvekjandi að taka skref eins og að ráða inn fólk en ég ákvað að gera það. Þetta var orðið of mikið fyrir mig einan að reka þetta, ég vann svona 60 tíma á viku minnst en svona er þetta víst bara þegar maður er að byggja upp fyrirtæki,“ segir Ívar.

„Nú er ég að skoða inn að taka inn meðeiganda til þess að það sé hægt að deila ábyrgðinni og taka erfiðar ákvarðanir saman.“

Alls hefur fólk frá níu löndum starfað í Hjólasjoppunni og …
Alls hefur fólk frá níu löndum starfað í Hjólasjoppunni og var þar nóg að gera í sumar.

Hefur lifað í óöryggi alla tíð

Ívar man daginn þegar hann hóf feril sinn í reiðhjólaviðgerðum eins og hann hefði verið í gær. Það var þann 18. mars 2020, þegar öllu var skellt í lás í Noregi í fyrsta sinn. Þá byrjaði hann að starfa sem einskonar farandverkamaður í reiðhjólaviðgerðum. „Það var bara í þeirri viku sem ég rambaði á þetta, prófaði þetta. Það virtist bara vera þörf á þessu. Það er gaman að vera með í grænu byltingunni og koma inn á réttum tíma.“

Ef þú hefðir horft inn í framtíðina fyrir tveimur árum síðan, hefðir þú þá búist við því að vera á þessum stað í dag?

„Engan veginn. Þetta byrjaði þannig að ég var að reyna að bjarga mér og til þess að fá einhverja innkomu,“ segir Ívar sem var sjálfstætt starfandi leikari og stýrði stúdíói áður en faraldurinn skall á. „Ég er ekki vanur því að fá neina hjálp sem sjálfstætt starfandi leikari sem ég hef verið í 20 ár. Ég hef í raun lifað í ákveðnu óöryggi alla tíð þannig að þarna þurfti ég algjörlega að söðla um, gleyma leiklistinni og setja hausinn í næstu björg.“

Ferfætlingar hafa líka látið sjá sig á verkstæðinu.
Ferfætlingar hafa líka látið sjá sig á verkstæðinu.

Kom að Beforeigners og fleiru til hliðar við reksturinn

Ívar hefur nú að einhverju leyti tekið upp þráðinn í leiklistinni aftur þó að verkstæðið sé í forgrunni. „Ég vel aðeins betur verkefnin, nú er ég ekki eins háður því að taka öllu sem býðst. Ég er meira að segja búinn að taka að mér töluvert af verkefnum undanfarið,“ segir Ívar. Hann vann til að mynda nýverið við framleiðslu þáttaseríunnar Beforeigners, annarrar seríu sem HBO framleiðir, tveggja bíómynda og stuttmynd. „Ég get bara einhvern veginn jögglað þessu núna,“ segir Ívar.

Hann segir að reynsla hans úr leiklistarheiminum hafi nýst við uppbyggingu fyrirtækisins.

„Þetta er næstum því svona hlutverk sem maður fer í – nú er ég bara bissness og viðgerðamaður. Ég hef pródúserað leikverk, leikstýrt og er menntaður í menningarstjórnun. Það er gaman að geta tekið eitthvað úr þessu öllu og sett þetta í hjólaviðgerðarfyrirtækið mitt. Það er mjög mikilvægt að hafa góðan hóp þegar maður byrjar að vaxa og það er alveg það sama og með leikhóp eða íþróttalið. Það þarf að vera góður andi og opin tjáning. Ég hef gaman af því líka, að setja saman og byggja upp stemmninguna í kringum þetta.“

„Það er rosalega góð tilfinning þegar fólk kemur til baka. …
„Það er rosalega góð tilfinning þegar fólk kemur til baka. Þá finnst manni maður hafa verið að gera eitthvað rétt,“ segir Ívar.

„Núna þarf ég bara að vera góður í þessu líka“

Þá segir Ívar viðskiptaheiminn og listalífið ólíka veruleika en það sé gaman að hrærast í þeim báðum. „Í listalífinu þarftu sífellt að segja já en í viðskiptum þarftu að geta sagt nei miklu miklu oftar. Ef það kemur niður á fyrirtækinu þá eyðileggur það fyrir svo mörgum. Það er búið að vera svolítið gaman að vekja upp nei kallinn,“ segir Ívar og hlær.

„Núna þarf ég bara að vera góður í þessu líka. Þetta er aldrei öruggt, maður þarf  vera svolítið á tánum og fylgjast með. Maður getur ekkert slakað á. En það hentar mér ágætlega.“

Góð tilfinning þegar fólk snýr aftur

Eins og áður segir er minna að gera í þessum bransa á veturna og segir Ívar að hann noti tímann núna til þess að skipuleggja árið fram undan. „Það eru þeir allra hörðustu sem hjóla. Fólkið sem hjólar í öllum veðrum og þegar þau koma inn með hjólin þá er farið að sjá svolítið á þeim,“ segir Ívar sem gerir við um 10 hjól á viku yfir vetrartímann.

Ívar var sjálfur enginn sérfræðingur í hjólaviðgerðum þegar hann fór af stað en hafði starfað í hjóladeild Útilífs í eitt ár og svo gert við sín eigin hjól, þar á meðal núverandi fararskjóta sem er orðinn 18 ára gamall og virkar samt vel. Hann segist sífellt sækja sér nýja þekkingu um reiðhjólaviðgerðir, bæði á netið og til annarra viðgerðamanna. Sjálfur er hann farinn að taka eftir fastakúnnum og lítur björtum augum til framtíðar. „Það er rosalega góð tilfinning þegar fólk kemur til baka. Þá finnst manni maður hafa verið að gera eitthvað rétt,“ segir Ívar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK