Frá og með morgundeginum geta viðskiptavinir Toyota leigt sér Toyota- eða Lexus-bíl til 12-36 mánaða.
Þessi nýja þjónusta Toyota ber yfirskriftina Kinto ONE og er hluti af nýrri stefnu fyrirtækisins á alþjóðavísu. Haukur Þór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Okkar bílaleigu, sem heldur utan um Kinto-þjónustuna hér á landi, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að leigan henti þeim sem þurfi að hafa aðgang að bíl en vilji ekki endilega binda fjármagn með kaupum á einum slíkum.
Allt er innifalið í leiguverði nema bensínkostnaður og þrif, þar með talið tryggingar, bifreiðagjald, dekk og dekkjaskipti auk reglubundins viðhalds.
Bíllinn er kaskótryggður sem þýðir að ef notandi verður valdur að tjóni greiðir hann eigin áhættu upp á að hámarki 177 þúsund krónur fyrir hvert einstakt tjón.
Forsaga málsins er sú að sögn Hauks að árið 2019 stofnaði Toyota fyrirtækið Kinto með það að markmiði að koma til móts við stækkandi hóp viðskiptavina sem vilja leigja bíla til skemmri eða lengri tíma og hafa fjölbreyttari þarfir en hefðbundnir kaupendur sem eiga sinn bíl til lengri tíma og sinna þannig öllum sínum ferðaþörfum.
Ástæðan fyrir þessu skrefi Toyota er að sögn Hauks að móðurfyrirtækið skilgreinir sig ekki lengur sem bílaframleiðanda eingöngu, heldur fyrirtæki sem hefur á boðstólum margvíslegar lausnir til að auðvelda öllu fólki að komast á milli staða.
Haukur segir að langtímaleiga á Toyota- og Lexus-bílum sé einungis fyrsta skrefið því í raun séu engin takmörk á því hvað hægt er að gera innan Kinto-hugmyndafræðinnar.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.