Efnahagshorfur næstu missera byggjast á þeirri forsendu að ekki verði alvarlegt bakslag í baráttunni við kórónuveiruna og að áfram vindi ofan af þeim framboðstruflunum sem hafa leitt til mikilla verðhækkana á hrávöru.
Mikil óvissa ríkir um þessa forsendu, að því er kemur fram í Peningamálum Seðlabankans.
Peningastefnunefnd bankans hefur ákveðið að hækka stýrivexti um 0,75 prósentur.
Verðbólga mældist 5,7% í janúar og hefur ekki verið meiri í næstum áratug. Gert er ráð fyrir að verðbólgan verði áfram yfir 5% fram eftir árinu og verði ekki komin undir 4% fyrr en í byrjun næsta árs og fari ekki undir 3% fyrr en á seinni hluta spátímans. Því er spáð að hún verði að meðaltali 3,4% á næsta ári.
„Hætta á stríðsátökum í Evrópu og hratt vaxandi verðbólga um allan heim hafa aukið enn frekar á óvissuna. Þá gæti hækkun verðbólguvæntinga bent til þess að verðbólga verði jafnvel þrálátari en nú er spáð,“ segir í Peningamálum.
Fram kemur að verðbólguvæntingar til skamms tíma hafi hækkað í nýlegum könnunum en almennt er búist við því að verðbólga hjaðni á næstu tveimur árum. Markaðsaðilar og stjórnendur fyrirtækja gera ráð fyrir að verðbólga verði 3% eftir tvö ár en heimili vænta þess að hún verði 4%.