Hagnaðist um 6,5 milljarða

Höfuðstöðvar Arion banka.
Höfuðstöðvar Arion banka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagnaður Arion banka nam 6.522 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Var heildarhagnaður bankans um 28,6 milljarðar króna á árinu öllu. Arðsemi eiginfjár var 13,4% á fjórðungnum og 14,7% á árinu.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu bankans, sem send var á fjölmiðla nú fyrir stundu.

Þar kemur einnig fram að heildareignir bankans hafi numið 1.314 milljörðum króna í árslok, samanborið við 1.173 milljarða króna í árslok 2020. Lán til viðskiptavina jukust um 13,8% frá áramótum, en íbúðalán hækkuðu um 22,6% á sama tíma og lán til fyrirtækja jukust um 5,2%, einkum á fjórða ársfjórðungi.

Þá jókst lausafé um 9,9% þrátt fyrir endurkaup á hlutabréfum bankans og arðgreiðslu fyrir samtals 31,5 milljarða króna á árinu 2021. Á skuldahliðinni jukust innlán um 15,3% á árinu og lántaka jókst um 19,3%, aðallega vegna útgáfu á grænum skuldabréfum og sértryggðum skuldabréfum í evrum. Heildar eigið fé nam 195 milljörðum króna í árslok og kom afkoma tímabilsins til hækkunar en til lækkunar komu arðgreiðslur og endurkaup á hlutabréfum bankans.

Í tilkynningunni segir að eiginfjárhlutfall bankans, svonefnt CAR-hlutfall, hafi verið 23,8% í árslok og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 19,6% að teknu tilliti til væntrar arðgreiðslu að fjárhæð 22,5 milljarðar króna og 4,3 milljarða króna eftirstöðva á gildandi endurkaupaáætlun sem byggir á heimild Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands frá því í október. „Eiginfjárhlutfall og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 eru vel umfram kröfur sem settar eru fram í lögum og af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.“

Bankinn náði öllum sínum rekstrarmarkmiðum 

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir í tilkynningunni að starfsemi bankans hafi gengið vel árið 2021, þrátt fyrir heimsfaraldur og samkomutakmarkanir sem settu svip sinn á það. „Bankinn náði öllum sínum rekstrarmarkmiðum og vann að fjölmörgum spennandi verkefnum með viðskiptavinum sínum.“

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.

Segir Benedikt jafnframt að bankinn leggi sig fram um að vera góður samstarfsaðili og stuðla að sameiginlegum árangri sinum og viðskiptavina sinna. „Á þessu ári unnum við með fjölda fyrirtækja að spennandi verkefnum eins og útboð Arctic Fish, Play, Íslandsbanka og Solid Clouds eru góð dæmi um. Einnig kom bankinn að lána- og ráðgjafarverkefnum stórra fyrirtækja í lyfja-, smásölu-, fjarskipta- og byggingargeirunum,“ segir Benedikt.

Hann bendir jafnframt á að árið hafi verið metár í íbúðalánum en bankinn lánaði alls 211 milljarða króna í íbúðalán og óx íbúðalánasafn bankans um 85 milljarða króna. „Þær eignir sem viðskiptavinir okkar hafa falið okkur að stýra fyrir sína hönd jukust um rétt tæp 20% og námu í árslok 1.352 milljörðum króna. Arion banki var að auki með hæstu hlutdeild í miðlun hlutabréfa í kauphöll sjötta árið í röð,“ segir Benedikt. 

„Við höfum haft forystu hér á landi á sviði stafrænnar fjármálaþjónustu. Á árinu bættum við hlutabréfa- og sjóðaviðskiptum í Arion appið og fjöldi viðskipta með hlutabréf í gegnum netbanka og app meira en þrefaldaðist frá fyrra ári. Lífeyrismálin í appinu halda áfram að vekja lukku og hefur sala lífeyrissamninga og flutningar á inneign aukist til muna. Við sjáum af þessum tveimur nýjungum hversu vel viðskiptavinir okkar kunna að meta það þegar við einföldum þjónustu sem í hugum margra er flókin og fjarlæg,“ segir Benedikt meðal annars í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK