Síminn og sænska fjarskiptafyrirtækið Ericsson hafa undirritað fimm ára samstarfssamning um áframhaldandi uppbyggingu og rekstur á farsímakerfi Símans, að því er kemur fram í tilkynningu.
Segir að samhliða enn frekari þéttingu á 4G kerfi Símans um land allt tryggi hinn nýi samningur hraðari uppbyggingu á 5G farsímakerfum en Síminn hefur í dag sett upp 30 virka 5G senda.
„5G kerfi Ericsson mun færa viðskiptavinum Símans enn meiri hraða og ánægjulegri upplifun enda Ericsson leiðandi framleiðandi 5G farsímakerfa í heiminum. Samningurinn gerir Símanum einnig kleift að þróa vöruframboð sitt enn frekar og bjóða upp á nýjungar í farsíma og farneti á næstunni,“ segir í tilkynningunni.
Samhliða hinum framlengda samningi gera Míla og Ericsson með sér samstarfssamning vegna farsímasenda og bakendakerfa tengd þeim en Síminn mun sem fyrr reka miðju kerfisins ásamt öðrum kerfum sem snúa að virðisaukandi þjónustu.
Haft er eftir Orra Haukssyni forstjóra Símans að Ericsson hafi verið einn mikilvægasti samstarfsaðili Símans frá upphafi og að Síminn væri stoltur að halda samstarfinu áfram.
„Með því að velja að vinna áfram með hinum sænska tæknirisa teljum við að öryggi viðskiptavina okkar sé tryggt og hafið yfir allan vafa, ásamt því að Síminn mun áfram geta boðið viðskiptavinum frábæra þjónustu yfir farsímakerfið okkar og að viðskiptavinir okkar upplifi ávallt nýjungar á heimsmælikvarða,“ sagði Orri.
Þá er haft eftir Niclas Backlund, svæðisstjóra Íslands hjá Ericsson, að Ericsson muni innleiða nýjustu gerð 5G tækni sem hefur yfir að ráða enn meiri sveigjanleika og orkusparnað sem muni nýtast traustum innviðum Símans enn betur.