Umræðan um mistök ber vott um minnisleysi

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun. mbl.is/Stefán Einar

Umræða um að Seðlabanki Íslands hafi gert mistök með því að lækka vexti í upphafi kórónuveirufaraldursins ber vott um minnisleysi. Margir sem tala þannig núna töluðu á þessum tíma með allt öðrum hætti, sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi peningastefnunefndar þar sem ákveðið var að hækka stýrivexti. 

Ásgeir sagði háværar raddir hafa verið uppi á sínum tíma um að ríkið kæmi inn með ýmsum hætti, til dæmis með því að styrkja ferðaþjónustuna og fyrirtæki. Hann nefndi að alvarleg tíðindi hafi verið uppi fyrir tveimur árum síðan og mikil óvissa í gangi. Samdrátturinn hafi verið gríðarlega mikill „en okkur hefur tekist að fara í gegnum hann með ákaflega góðum hætti“.

Aðaláherslan á heimilin

Hann sagði Seðlabankinn hafa lagt aðaláhersluna á heimilinu í landinu þegar kórónuveiran fór af stað með því að tryggja að hver einasti þegn fengi lægri vexti. Þetta veitti heimilunum aukinn kaupmátt og hann hafi aldrei minnkað.

Hann sagði ákvarðanir Seðlabankans hafa skilað ríkissjóði stórfé og að fyrir liggi að allar tekjuáætlanir ríkissjóðs hafi verið hærri en spár gerðu ráð fyrir, meðal annars vegna aðgerða Seðlabankans til að örva hagkerfið.

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu og staðgengill formanns nefndarinnar, sagði umræðuna vera „eins og það sé búið að gleyma hvað gerðist í fyrra“. Hún sagði að ekki hafi verið hægt að velta fyrir sér í fjórar vikur hvað hægt væri að gera. „Við þurftum að bregðast við og það hefur tekist ágætlega,“ sagði hún.

Þór­ar­inn G. Pét­urs­son­, aðal­hag­fræðingur Seðlabank­ans og fram­kvæmda­stjóri sviðs hag­fræði og …
Þór­ar­inn G. Pét­urs­son­, aðal­hag­fræðingur Seðlabank­ans og fram­kvæmda­stjóri sviðs hag­fræði og pen­inga­stefnu, á fundinum í morgun. mbl.is/Stefán Einar

Langtímaskaðinn hefði orðið meiri

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði að langtímaskaðinn hefði orðið meiri ef peningastefnan hefði verið harðari. Fleira fólk hefði orðið atvinnulaust og að lokum dottið út af vinnumarkaði með langtímaskaða fyrir samfélagið.

Ásgeir áréttaði að fókusinn hafi verið á heimilin til að tryggja kaupmátt og stöðugleika með lægri vaxtagreiðslum og nefndi að ekki væri smekklegt núna að sjá verslunarfyrirtæki auglýsa verðhækkanir í fjölmiðlum.

Hann sagði „aðalfókusinn“ vera kjarasamningana í haust og hvort þeir nái að trygga verðstöðugleika . „Við óskum að þeir samningar munu gera það. Þá þurfum við ekki að breyta stýrivöxtum,“ sagði hann.

Vextirnir á sama stað og fyrir faraldur

Ásgeir benti einnig á að eftir þessa vaxtahækkun séu vextirnir á nákvæmlega sama stað og þegar faraldurinn hófst. Hann sagði öll störfin sem töpuðust hafa komið til baka hvað fjöldann varðar, en ekki endilega sömu störfin.

„Þrátt fyrir þessa verðbólgu er kaupmáttur að vaxa, efnaghagsreikningar heimilanna eru miklu sterkari en þeir voru og bankarnir eru líka sterkari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK