Hildur Björk Pálsdóttir, sérfræðingur Origo í jafnlaunavottunum og umsjónarkona verkefnisins, segir í samtali við Morgunblaðið að varan hafi farið í loftið á mannauðsdaginn áttunda október sl. „Við erum þegar komin með ellefu fyrirtæki í viðskipti. Eitt þeirra er nú þegar komið með vottun og annað er að fara í lokaúttekt í þessum mánuði,“ segir Hildur sem kveðst hæstánægð með viðtökurnar og jákvæða endurgjöf frá viðskiptavinum.
Um tildrög þess að lausnin var smíðuð segir Hildur að í byrjun árs 2020 hafi hún og samstarfsfólk hennar verið að skoða hvernig hægt væri að hjálpa viðskiptavinum í gæðamálum. Þá hafi komið upp sú hugmynd að blanda saman kunnáttu og þekkingu hennar og Mariu Hedman samstarfskonu hennar sem sé sérfræðingur í gæðastjórnun. „Okkur datt upphaflega í hug að halda námskeið og gerðum drög að skjölum sem fyrirtæki þurfa á að halda til að uppfylla kröfur jafnlaunastaðalsins.“
Námskeiðið átti að hefjast um miðjan mars árið 2020, en þá setti faraldurinn verkefnið í bið. Á fundi með Jóni Björnssyni forstjóra Origo hafi síðan komið upp sú hugmynd að smíða sérstaka hugbúnaðarlausn.
Origo styður við fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Hluti af smíði kerfisins er stuðningur við eitt þeirra, jafnrétti kynjanna. „Justly Pay og það að bjóða kerfið á viðráðanlegu verði styður við markmiðið.“
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.