Hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja á síðasta ári nam 81,3 milljörðum á síðasta ári, en þeir hafa nú allir birt ársreikninga sína. Eykst hagnaðurinn mikið, en á síðasta ári var samanlagður hagnaður þeirra tæplega 30 milljarðar. Þá var hagnaður bankanna fyrir árin 2018-2020 samtals 94,1 milljarðar.
Aukinn hagnað má að miklu leyti rekja til jákvæðra áhrifa af virðisbreytingum á eignasafni bankanna.
Íslandsbanki birti ársreikning sinn síðastur bankanna í dag, en hann nam 23,7 milljörðum, en hann hafði árið áður verið 6,8 milljarðar. Hjá Arion banka var hagnaðurinn 28,6 milljarðar og jókst úr 12,5 milljörðum árið áður. Hjá Landsbankanum var hagnaðurinn 28,9 milljarðar og hækkaði úr 10,5 milljörðum árið áður.
Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag að mikill hagnaður bankanna ættu bankarnir að létta undir með heimilum og fyrirtækjum sem horfa fram á hærri vaxtabyrði vegna vaxtahækkana Seðlabankans. Talaði hún um ofurhagnað bankanna og vildi að bankarnir sýndu samfélagslega ábyrgð. Viðraði hún einnig hugmyndir um að endurvekja bankaskatt eins og hann var áður.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði við mbl.is að þessar spurningar Lilju og vangaveltur væru ekki óeðlilegar en minnti á að bankaskattur væri þegar við lýði. Þá sagði hann að ekki mætti gleyma að bankarnir væru með mjög eigið fé og arðsemi bankanna væri fyrst núna að komast á sama stað og arðsemi norrænna banka.