Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir að horfa þurfi á afkomu bankans í samhengi við stærð hans og áhættu. Á þá leið svarar hún þeim ummælum sem Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra lét falla í samtali við Morgunblaðið og birtust í dag.
Sagðist ráðherrann telja að bankarnir eigi, í ljósi mikils hagnaðar, að létta undir með heimilum og fyrirtækjum sem horfa fram á hærri vaxtabyrði vegna vaxtahækkana Seðlabankans.
„Bankarnir eru að skila ofurhagnaði og hagnaður þeirra verður meiri í kjölfar stýrivaxtahækkana Seðlabanka Íslands. Ég tel að það eigi að nota þennan ofurhagnað til að greiða niður vexti fólksins í landinu,“ sagði ráðherrann.
Lilja Björk bendir á að hagnaður bankans, í samhengi við stærð hans, sé í samræmi við yfirlýst markmið.
„Á árinu 2021 var arðsemi eigin fjár 10,8%, sem er mjög ásættanlegt og jafnframt betri arðsemi en nokkur undanfarin ár. Það þarf að setja arðsemina í samhengi við það hversu mikið eigið fé er í bankanum og hversu hátt eiginfjárhlutfall bankans er,“ segir hún.
Hvað varði það að bjóða almenningi góð kjör á útlánum segir Lilja Björk að meginverkefnið sé að rekstur bankans sé góður og traustur og að viðskiptavinir fái framúrskarandi fjármálaþjónustu á sanngjörnum kjörum.
„Til viðbótar er okkar hlutverk líka að að sjá til þess að verðmæti bankans, sem er eign þjóðarinnar, rýrni ekki. Undanfarin ár höfum við náð mjög góðum árangri í rekstri bankans. Rekstrarkostnaður hefur nánast staðið í stað í krónum talið á meðan efnahagsreikningur og umfang bankans hefur stækkað umtalsvert,“ segir Lilja.
„Með öðrum orðum hefur hagkvæmni í rekstri aukist. Það gerir okkur kleift að bjóða viðskiptavinum betri kjör.“
Íslenska ríkið á 98,2% hlut í Landsbankanum, bankinn sjálfur á um 1,6% og aðrir hluthafar eiga um 0,2%. Arðurinn rennur því að nær öllu leyti í ríkissjóð, sem gerir svo vissar kröfur um arðsemi bankans.
Lilja Björk tekur fram að bankinn hafi verið leiðandi í lægstu kjörum á íbúðalánamarkaði undanfarin þrjú ár.
„Og það hlýst auðvitað af því að við einbeitum okkur að því að tryggja hagkvæman rekstur bankans. Arðsemi bankans er ásættanleg og í samræmi í við stefnu sem samþykkt er á aðalfundi.“
Ráðherra kvaðst telja samfélagslega ábyrgt af bankakerfinu og fjármálastofnunum að styðja við samfélagið á leið út úr faraldrinum. Betra væri að bankarnir færu að huga að heimilunum í landinu, „og ef bankarnir finna ekki einhverja lausn á því tel ég að við ættum að endurvekja bankaskattinn“.
Lilja Björk bendir í þessu samhengi á að algjör viðsnúningur hafi orðið á afkomu bankans á milli ára.
„Þessi mikli viðsnúningur skýrist að stóru leyti af því að staða heimila og fyrirtækja er umtalsvert betri en verstu spár gerðu ráð fyrir í upphafi faraldursins. Vegna faraldursins færðum við töluverðar fjárhæðir í varúðarsjóð en getum nú bakfært þær.“
Þetta komi fram sem tekjur í uppgjöri bankans upp á um sjö milljarða króna.
„Vegna þess hagnaðar sem varð á rekstri á árinu erum við líka í stöðu til að greiða ágætan arð,“ segir hún og bætir við að lögð verði fram arðgreiðslutillaga á aðalfundi upp á 14,4 milljarða.
„Verði tillagan samþykkt mun bankinn hafa greitt rúmlega 160 milljarða króna í arð frá árinu 2013.“
Spurð hvort hún telji það rétt metið af ráðherranum, þegar hún segir bankana munu hagnast meira vegna vaxtahækkana Seðlabankans, segir Lilja Björk að hafa verði í huga að fjölmargir þættir hafa áhrif á afkomu banka.
„Það fer alltaf eftir því hvers konar áhætta er undirliggjandi og hvernig þróunin verður í rekstri bankans. Vaxtamunur hefur verið að dragast saman í lækkandi vaxtaumhverfi og spurn eftir verðtryggðum lánum er varla til staðar lengur. Þannig að það er ekki hægt að draga þá ályktun beint. Við erum ekki að gera ráð fyrir jafn hárri arðsemi af rekstri á næsta ári, þrátt fyrir vaxtahækkanir Seðlabankans.“