Íslandsbanki hagnaðist um 23,7 milljarða

Arðsemi eigin fjár var 14,2% á ársgrundvelli.
Arðsemi eigin fjár var 14,2% á ársgrundvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 7,1 milljarði króna á fjórða fjórðungi síðasta árs. Hagnaðurinn á öllu árinu 2021 nam því 23,7 milljörðum króna, saman borið við 6,8 milljarða króna árið 2020. 

Arðsemi eigin fjár var 14,2% á ársgrundvelli, sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans og spám greiningaraðila að því er fram kemur í tilkynningu.

Helstu ástæður góðrar afkomu eru sagðar vera sterk tekjumyndun, aðhald í rekstri, jákvæð virðisbreyting útlána og auknar tekjur af aflagðri starfsemi.

Tekið er fram að hreinar vaxtatekjur hafi aukist um 4,7% á milli ára og numið 8,6 milljörðum króna á fjórðungnum, saman borið við 8,3 milljarða á sama tímabili árið 2020.

Hækkunin á milli ára er sögð skýrast af stækkun lánasafns bankans á árinu.

Þóknanatekjur jukust um 27,5%

Hreinar þóknanatekjur hafi þá aukist um 27,5% á milli ára og numið samtals 3,7 milljörðum króna á ársfjórðungnum, saman borið við 2,9 milljarða á síðasta fjórðungi ársins 2020.

„Auknar tekjur í greiðslumiðlun, eignastýringu og fjárfestingarbanka sem og verðbréfaviðskiptum leiddu hækkunina,“ segir í tilkynningu.

Bent er á að bankinn leggi aðaláherslu á kjarnastarfsemi og að á fjórðungnum hafi vaxta- og þóknanatekjur numið samanlagt 94% af rekstrartekjum, saman borið við 92% á síðasta fjórðungi 2020. Þessir tveir tekjuliðir hafi þannig aukist um 10,5%.

Þegar litið er yfir árið í heild sinni þá námu hreinar vaxtatekjur samtals 34 milljörðum króna og hækkuðu um 2% á milli ára. Skýrist hækkunin af stærra lánasafni en vaxtamunur á árinu var 2,4% borið saman við 2,6% árið áður.

Kostnaðarhlutfall lækkaði

Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 22,1% á milli ára og námu samtals 12,9 ma. kr. á árinu 2021. Vöxturinn dreifist nokkuð jafnt eftir liðum sem sagt er sýna sterkan tekjugrunn.

Hreinar fjármunatekjur námu 2,5 ma. kr. á árinu 2021, saman borið við tap árið 2020 að fjárhæð 1,4 ma. kr., þar sem markaðsaðstæður voru betri á árinu 2021.

Stjórnunarkostnaður hækkaði um 2,0% á milli ára en í tilkynningu segir að það megi aðallega rekja til einskiptiskostnaðar í tengslum við skráningu bankans eða um 521 m.kr.

„Launakostnaður jókst um 3,7% á árinu sem má rekja til kjarasamningshækkana, einskiptiskostnaðar vegna skráningar bankans og hærri kostnaðar vegna starfsloka. Kostnaðarhlutfall lækkaði verulega á milli ára, úr 54,3% árið 2020 í 46,2% árið 2021.“

Bankarnir létti undir með heimilum

Lilja Al­freðsdótt­ir viðskiptaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í dag telja að bank­arn­ir eigi, í ljósi mik­ils hagnaðar, að létta und­ir með heim­il­um og fyr­ir­tækj­um sem horfa fram á hærri vaxta­byrði vegna vaxta­hækk­ana Seðlabank­ans.

„Bank­arn­ir eru að skila of­ur­hagnaði og hagnaður þeirra verður meiri í kjöl­far stýri­vaxta­hækk­ana Seðlabanka Íslands. Ég tel að það eigi að nota þenn­an of­ur­hagnað til að greiða niður vexti fólks­ins í land­inu,“ sagði Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka