Andri Þór Björnsson, atvinnukylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, hefur gengið til liðs við
ferða- og afþreyingarskrifstofuna TA Sport Travel.
Þar mun hann taka að sér hlutverk fararstjóra í golfferðum ásamt því að taka þátt í Golfskóla TA og sölu á golfferðum.
Andri Þór er atvinnukylfingur og spilar á Challenge Tour og Nordic League mótaröðunum. Hann er margfaldur sigurvegari íslensku mótaraðarinnar í golfi ásamt því að vera ríkjandi klúbbmeistari Golfklúbbs Reykjavíkur.
Áður en hann hóf feril í atvinnumennsku spilaði Andri Þór fyrir íslenska landsliðið á
Evrópumóti einstaklinga, Evrópumóti í liðakeppni og einnig á Heimsmeistaramóti í
liðakeppni.
Hjá TA Sport Travel mun Andri Þór hitta fyrir fyrrum liðsfélaga sinn, Snorra Pál Ólafsson, en sá síðarnefndi hefur gríðarlega reynslu af þjálfun á öllum aldurs- og getustigum og hefur yfirumsjón með Golfskóla TA á erlendri grundu.
Andri Þór útskrifaðist úr Nicholls State University þar sem hann spilaði golf fyrir lið háskólans.