Valitor hagnast í fyrsta sinn frá 2017

Höfuðstöðvar Valitor við Dalshraun.
Höfuðstöðvar Valitor við Dalshraun. Ljósmynd/Valitor

Heildarafkoma Valitor nam um 353 milljónum króna á árinu 2021, samanborið við heildartap upp á um einn milljarð króna árið áður. Viðsnúningurinn á milli ára er því um 1,4 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. 

Þar segir einnig að niðurstaðan sé í samræmi við væntingar stjórnenda en þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2017 sem Valitor skilar hagnaði á ársgrundvelli, samkvæmt tilkynningunni.

Einnig segir að unnið hafi verið markvisst að því að hagræða og einfalda rekstur félagsins á liðnum árum, samþætta grunnkerfi og auka skilvirkni.

Heildartekjur 14,3 milljarðar

Heildartekjur félagsins námu um 14,3 milljörðum króna og jukust um 2,5% á milli ára. Heildarrekstrarkostnaður félagsins dróst saman um tæplega 1,2 milljarða á milli ára. Launakostnaður dróst saman um 350 milljónir króna og annar rekstrarkostnaður ásamt afskriftum lækkaði um 850 milljónir króna.

Í tilkynningunni segir að Valitor sé skuldlaust félag og eigið fé hafi numið 7,7 milljörðum króna í lok árs. „Valitor mun halda áfram að leggja áherslu á skilvirkni í rekstri ásamt því að byggja upp sterk viðskiptasambönd við viðskiptavini og samstarfsaðila,“ segir í tilkynningunni. 

Arion banki, eigandi Valitor, samdi um sölu á Valitor til fjártæknifélagsins Rapyd 1. júlí 2021, en salan bíður samþykkis frá Fjármálaeftirlitinu og Samkeppniseftirlitinu.

Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Valitor.
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Valitor. mbl.is/Árni Sæberg

Hagræðingaraðgerðir skila sér 

Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Valitor, segir í tilkynningunni að ánægjulegt sé að sjá árangur af þeim hagræðingaraðgerðum sem félagið hafi þurft að ráðast í á liðnum árum og séu að skila sér í bættri afkomu Valitor. „Þær aðgerðir hafa tekið á bæði stjórnendur og starfsmenn á sama tíma og félagið hefur tekist á við þau áhrif sem kórónuveiru-faraldurinn hefur haft á reksturinn. Framundan eru áskoranir sem meðal annars fela í sér auknar varnir, uppfærslu á tæknibúnaði og frekari vöxt samhliða bættu vöruframboði. Með bættum rekstri erum við betur í stakk búin til að takast á við þær áskoranir og við horfum til ársins 2022 full tilhlökkunar með okkar öfluga starfsfólki,“ segir Herdís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK