Vilja koma á bónuskerfi fyrir lykilstarfsmenn

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn Icelandair vill koma á hvatakerfi fyrir lykilstarfsmenn félagsins og verður tillaga þar að lútandi lögð fyrir aðalfund félagsins 3. mars. Samkvæmt tillögunum er lagt til að lykilstarfsmenn geti fengið allt að 25% bónusgreiðslur ofan á laun sín, en til viðbótar er einnig lagt til lykilstarfsmenn fái kauprétt að hlutabréfum í félaginu. Miðað við markaðsvirði félagsins nemur sú upphæð um tveimur milljörðum í dag, en gert er ráð fyrir að kaupréttartímabilið verði næstu þrjú ár.

Í dagskrá aðalfundarins sem send var út í gær koma tillögur stjórnarinnar fram. Segir þar meðal annars að gert sé ráð fyrir því að kostnaður við hvatakerfið sé 3,6 milljónir dala, eða sem nemur um 455 milljónum íslenskra króna. Kaupaukakerfið mun hins vegar ekki fela í sér útflæði fjármagns, heldur verða fjármagnað með útgáfu nýrra hlutabréfa. Nánari útfærsla kemur einnig fram í fylgiskjali með dagskránni.

Segir í tillögunni að horft sé til þess að gefa út allt að 250 milljónir hluta á þessu ári vegna kaupréttarkerfisins, en að fjöldinn geti orðið allt að 900 milljónir á þremur árum. Gengi Icelandair í dag er 2,25 krónur á hlut og því er heildarvirði þessara nýju hluta rúmlega tveir milljarðar. Gætu starfsmennirnir innleyst bréfin þremur árum eftir að kauprétturinn væri nýttur.

Icelandair kynnti uppgjör sitt fyrir síðasta ár í byrjun mánaðarins en tap félagsins nam rúmlega 13 milljörðum eftir að tap á síðasta ársfjórðungi nam 5 milljörðum. Sagi Bogi Nils Boga­son, forstjóri Icelandair, í tilkynningu vegna uppgjörsins að stefnt væri að jákvæðri afkomu á þessu ári.

Bain Capital er stærsti hluthafinn í Icelandair með 15,74% hlut, en félagið keypti 16,6% síðasta sumar fyrir um 8,1 milljarð. Þar á eftir koma nokkrir íslenskir lífeyrissjóðir auk Íslandsbanka og Arion banka.

Í stjórn Icelandair sitja þau Guðmundur Hafsteinsson, sem jafnframt er stjórnarformaður, Nina Jonsson, John F. Thomas, Matthew Evans og Svava Grönfeldt.

Uppfært: Í ábendingu frá Icelandair segir að stjórn félagsins sé einungis að leggja til langtímahvatakerfi í formi kauprétta. Bónuskerfi fyrir starfsfólk, sem verið hafi til staðar, sé óbreytt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK