Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, greindi á dögunum frá niðurstöðum alþjóðlegrar samkeppni um þróun svæðisins í grennd við Keflavíkurflugvöll.
Áformin eru á frumstigi en rætt er um uppbyggingu á hundruðum þúsunda fermetra næstu áratugi fyrir tugi, ef ekki hundruð, milljarða. Mun sú uppbygging styrkja Reykjanesið sem atvinnusvæði og hugsanlega laða fleiri alþjóðleg fyrirtæki til landsins.
Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, segir meðal annars til skoðunar að tengja betur saman Helguvík og flugvöllinn. Þar með talið við Háaleiti sem verður milli Ásbrúar og flugvallarins.
„Við erum að skoða tækifærin við Helguvíkurhöfn en hún er, líkt og Háaleitishlaðið, vannýtt í dag. Það hafa lengi verið uppi hugmyndir um að reyna að tvinna saman flugvöllinn og höfnina, með útflutningi sjávararfurða með flugfrakt. Þá er verið að skoða tækifæri í kerskálanum [sem Norðurál byggði og hefur boðið til sölu] en þar eru m.a. uppi hugmyndir um klasasamstarf.
Þá eru uppi hugmyndir um græna iðngarða og matvælaframleiðslu við hafnarsvæðið og sömuleiðis hafa fyrirtæki um vetnisframleiðslu verið í sambandi við Kadeco vegna lóða við höfnina,“ segir Pálmi.
Stiklað er á stóru um þessi áform í ViðskiptaMogganum í dag.