Tryggingafélagið Sjóvá hagnaðist um 9,6 milljarða króna á árinu 2021, samanborið við 5,3 milljarða króna hagnað árið á undan, sem er 80% aukning milli ára.
Eignir Sjóvár voru í lok tímabilsins tæpir 68 milljarðar króna og jukust um tæp 15% milli ára en þær voru 59 milljarðar árið á undan.
Eigið fé félagsins nemur nú rúmum 24 milljörðum króna en það var rúmur 21 milljarður króna á sama tíma árið á undan. Eiginfjárhlutfall félagsins er 35,9% og samsett hlutfall er núna 90,9% en það var 92% árið á undan.
Í umfjöllun um uppgjörið á heimasíðu Sjóvár kemur fram að eigin iðgjöld fyrirtækisins hafi verið tæpir 24 milljarðar á árinu samanborið við 20 milljarða árið á undan.
Hagnaður fyrirtækisins af vátryggingarekstri fyrir skatta var 2,5 milljarðar króna og jókst um meira en 500 milljónir milli ára, en hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta var tæpir átta milljarðar króna og nær tvöfaldaðist milli ára.
Forstjóri félagsins, Hermann Björnsson, og stjórnarformaður, Björgólfur Jóhannsson, segja í ávarpi í ársskýrslu fyrirtækisins að rekstur Sjóvár hafi gengið með ágætum árið 2021. „Þrátt fyrir sérstakar aðstæður í samfélaginu einkenndist árið af sterkum grunnrekstri og afkomu af fjárfestingarstarfsemi langt umfram væntingar.“
Stjórn félagsins leggur til arðgreiðslu upp á tæpa 3,9 ma. króna.