Íslenska lyfjaþróunarfyrirtækið Coripharma hefur lokið 3,5 milljarða króna hlutafjáraukningu, sem í tilkynningu er sögð gerð til að styðja enn frekar við framtíðarvöxt félagsins með þróun nýrra samheitalyfja og áframhaldandi uppbyggingu söluteymis.
„Hlutafjáraukningin er í samræmi við áður kynntar áætlanir félagsins og laðaði að sér stóra fagfjárfesta, þar á meðal lífeyrissjóði, auk þess sem hún naut öflugs stuðnings frá núverandi hluthöfum,“ segir í tilkynningunni.
Stærsti einstaki þátttakandinn var CP Invest slhf., nýtt félag sem var stofnað sérstaklega í tengslum við þessa fjárfestingu, í eigu Iðunnar framtakssjóðs og lífeyrissjóða. CP Invest er nú stærsti einstaki hluthafinn með u.þ.b. 32% eignarhlut.
Meðal annarra hluthafa Coripharma má nefna Snæból, Eignarhaldsfélagið Hof, Framtakssjóðinn TFII, í stýringu Íslenskra Verðbréfa, og BKP Invest ehf. í meirihlutaeigu Bjarna K. Þorvarðarsonar, stjórnarformanns.
Ráðgjafar Coripharma við fjármögnunina voru Fyrirtækjaráðgjöf Kviku sem umsjónaraðili og fyrirtækjaráðgjöf Arion og fyrirtækjaráðgjöf Kviku sem söluráðgjafar.
„Coripharma er mikilvæg fjárfesting í safni Iðunnar. Hlutafjáraukningin treystir stoðir félagsins enn frekar fyrir áframhaldandi vöxt og framgang. Styrkur Coripharma felst í sýn og reynslu frumkvöðlanna sem að félaginu standa og reynslumiklu teymi stjórnenda,“ er haft eftir Hilmari Braga Janussyni, framkvæmdastjóra Iðunnar.
„Fjárfestingunni er ætlað að fylgja eftir og styrkja getu Coripharma á sviði hugverkaiðnaðar en félagið hefur nú þegar þróað, framleitt og hafið sölu á verðmætum samheitalyfjum á mörkuðum sem það hefur tryggt sér aðgang að.“
Jónína Gudmundsdóttir, forstjóri Coripharma, segir þá að það sé mjög hvetjandi að finna fyrir svo sterkum áhuga íslenskra fjárfesta á áframhaldandi vexti Coripharma.
„Þessi fjármögnun er hluti afskýrri stefnu okkar og mun skipta sköpum fyrir áframhaldandi rannsóknar- og þróunarstarfsemi, auk uppbyggingu á sölu- og markaðsstarfi erlendis.“
Coripharma er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki með um 140 starfsmenn og sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og útflutningi samheitalyfja ásamt því að sinna verktökuframleiðslu fyrir önnur lyfjafyrirtæki.