Atvinnusvæðið Hellnahraun er suðaustur af Vallahverfinu í Hafnarfirði. Það er gegnt álverinu í Straumsvík en á loftmynd af hluta svæðisins hér að neðan má sjá glitta í rauðhvíta súrálstanka álversins.
Deiliskipulag Hellnahrauns afmarkast af fyrirhuguðum Ofanbyggðarvegi í suðri, 2. áfanga Hellnahrauns í norðri, Krýsuvíkurvegi í austri og fyrirhugaðri tengibraut í austri. Vísi að þeirri vegagerð má sjá á malarvegum.
Uppbygging í fyrsta áfanga Hellnahrauns hófst upp úr aldamótum og er hann fullbyggður. Þá er uppbygging langt komin í öðrum áfanga og aðeins ein óseld lóð en Sorpa er þar meðal lóðarhafa.
Alls 112 lóðir eru í þriðja áfanga Hellnahrauns. Alls 47 lóðum var úthlutað í öðrum og þriðja áfanga í fyrra og voru flestar í fyrri hluta þriðja áfanga. Þá hefur bærinn gefið vilyrði fyrir úthlutun 15-20 lóða í síðari hluta þriðja áfanga en þar á eftir að úthluta rúmlega 50 lóðum.
Þegar Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, sýndi ViðskiptaMogganum svæðið í síðustu viku voru iðnaðarmenn að reisa atvinnuhúsnæði í Dofrahellu. Stærð svæðisins vakti athygli sem og sá fjöldi fyrirtækja sem hefur þar aðsetur.
Eftirspurnin hafi verið hófleg eða þar til í fyrra að úthlutað var 47 lóðum á atvinnusvæðum í öðrum og þriðja áfanga Hellnahrauns, eða álíka mörgum og árin fjögur þar á undan, vegna mikillar eftirspurnar.
Næsta skref sé að hefja gatnagerð fyrir 50 lóðir í seinni hluta þriðja áfanga Hellnahrauns í vor, og gætu framkvæmdir á því svæði hafist í framhaldinu. Þá er sem áður segir stefnt að því að deiliskipulag undir 80 lóðir í fjórða áfanga Hellnahrauns verði tilbúið í vor.
Samanlagt verða því um 192 lóðir í þriðja og fjórða áfanga Hellnahrauns en kaupendur hafa í einhverjum tilvikum sameinað lóðir.
Miðað við að lóðir séu að jafnaði 4.000 fermetrar er bærinn að úthluta alls 768 þúsund fermetrum á 192 lóðum í þriðja og fjórða áfanga Hellnahrauns. Miðað við að nýtingarhlutfall lóða verði 0,6 gætu þar risið um 480 þúsund fermetrar af atvinnuhúsnæði.
Í skipulagslýsingu segir að húsagerðir séu almennt frjálsar hvað varðar útlit, þakgerð og efnisval. Á jaðarlóðum verða strangari kröfur um útlit og frágang bygginga en annars staðar í hverfinu.
„Það er mikið spurt um iðnaðarlóðir. Þar ræðir einkum um fyrirtæki sem þurfa að víkja út af breyttu skipulagi í Reykjavík, sérstaklega á Ártúnshöfða og í Vogunum. Svo liggur svæðið einstaklega vel við samgöngum,“ segir Ólafur Ingi um áhuga fyrirtækja.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum sem kom út í gær.