Nýtt bakarí og kaffihús hefur verið opnað að Seljavegi 2 í Vesturbæ Reykjavíkur, í sama rými og veitingastaðurinn Héðinn Kitchen & Bar. Innangengt er á milli staðanna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Eigendur bæði kaffihússins og veitingastaðarins eru veitingamennirnir margreyndu Elías Guðmundsson og Viggó Vigfússon.
Blaðamaður Morgunblaðsins kíkti í heimsókn á Hygge, eins og nýi staðurinn heitir, og fékk þar að gæða sér á lungamjúku súrdeigsbrauði og bragðgóðu bakkelsi.
Viggó lýsir nýja staðnum sem Micro bakaríi, sem þýðir að allar veitingar eru bakaðar á staðnum.
Nostrað hefur verið við útlit kaffihússins og allir kaffibollar, kertastjakar, blómavasar og loftljós eru t.d. sérhönnuð fyrir Hygge.
Viggó segir að sérlega mikil áhersla hafi verið lögð á hljóðvistina á kaffihúsinu. Gólf- og loftefni hafi verið valin sérstaklega til að fólki líði vel og finnist notalegt að sitja inni á staðnum, vinna í fartölvunni eða eiga þar samræður.
„Við vöndum alls staðar til verka, ekki bara í bakkelsinu heldur í öllum smáatriðum innanhúss.“
Viggó segir að þó svo að hann og Elías séu eigendur Hygge þá eigi þær Guðrún Klara Sigurðardóttir, sem hefur umsjón með rekstri kaffihússins, og Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir bakari langmesta heiðurinn af útkomunni. „Við Elías erum bara tveir miðaldra karlar en þær eru ungar, hugmyndaríkar og óhræddar að prófa nýja hluti. Það var frábært að fá þær með okkur í verkefnið.“
Eins og Viggó útskýrir var mörgum hugmyndum að nöfnum velt upp áður en Hygge varð fyrir valinu. „Þórey kom með hugmyndina og við leyfðum henni að ráða nafninu.“
Eins og stendur á útihurðinni merkir danska orðið „hygge“ að eiga góða stund með vinum sínum og fjölskyldu og hafa það notalegt saman.
Áður en Guðrún hóf störf á Hygge hafði hún unnið sem þjónn og á kaffihúsi. „Ég kom svo hingað, fór að skipta mér af og spurði hvort ég mætti vera með,“ segir Guðrún og hlær.
Spurð um sína aðkomu segist Þórey hafa útskrifast sem bakari fyrir fjórum árum. Hún hafi síðan tekið sér smá pásu þar til henni var boðin vinna á Hygge. „Það var geggjað. Ég vissi að ég átti að fara að baka, en ég vissi ekki hve umfangsmikið það yrði.
Það hefur verið mjög gefandi að fá að taka svona mikinn þátt í að móta starfsemina. Það er gaman að fá þetta mikið traust frá yfirmönnum sínum.“
Viggó segir að fimm mánuði hafi tekið að þróa rétta deigið í sætabrauðið, móta réttu uppskriftirnar og finna besta hráefnið í mat og drykki. „Þetta er búið að taka miklu lengri tíma en við ætluðum, en við erum rosalega ánægð með útkomuna. Við leggjum upp með að hafa enga fasta ramma í vöruúrvalinu. Þetta verður dálítið lifandi. Úrvalið verður breytilegt.“
Þórey segir að spornað verði við matarsóun á Hygge og ekkert fari til spillis. Þar skipti máli að vera í nánu samstarfi við Héðinn Kitchen & Bar.
Viggó segir að innblásturinn fyrir kaffihúsið komi frá Danmörku. Undir það taka Þórey og Guðrún. „Innblásturinn kemur frá þessum nýju skandinavísku kaffihúsum og bakaríum.“