Tekjur Landsnets námu tæpum 19 milljörðum króna árið 2021 og er það um 15% hækkun miðað við árið áður.
Hagnaður félagsins nam rúmum 4,6 milljörðum árið 2021 miðað við hagnað upp á rúmlega 3,5 milljarða árið áður. Þetta kemur fram í ársuppgjöri Landsnets.
Rekstrahagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam tæpum 7,7 milljörðum samanborið við tæpa 6,1 milljarð árið 2020.
Eigið fé nam tæpum 59 milljörðum í lok árs og heildareignir félagsins í lok árs voru um 125 milljarðar. Arðsemi eigin fjár, var 8,1% á ársgrundvelli.
Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, segir ársreikninginn sýna fram á stöðuleika og félagið sé fjárhagslega sterkt eftir heimsfaraldurinn.
„Landsnet leggur áherslu á stöðugan og hagkvæman rekstur. Ársreikningurinn sýnir að vel tókst til og rekstur ársins gekk samkvæmt áætlunum. Það er afar ánægjulegt í ljósi þess að annað árið í röð fóru saman miklar framkvæmdir og heimsfaraldur skapaði krefjandi aðstæður í daglegum rekstri fyrirtækisins. […]. Það er ánægjulegt að segja frá því að rekstur Landsnets og framkvæmdir okkar í flutningskerfinu falla að sjálfbærniviðmiðum bankanna varðandi mótvægisaðgerðir í loftlagsmálum og sjálfbæra innviði. Er það traustur grunnur til að byggja á við fjármögnun komandi verkefna,“ segir Guðlaug í tilkynningu frá félaginu.