Pollapönkarar fjárfesta í Hljóðfærahúsinu

Þeir Arnar og Guðni hafa unnið hjá versluninni í um …
Þeir Arnar og Guðni hafa unnið hjá versluninni í um 15 ár. Ljósmynd/Aðsend

Pollapönkararnir þeir Arnar Gíslason og Guðni Finnson hafa keypt sig inn í rekstur Hljóðfærahússins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félögunum.

Þeir segja þeirra helstu samkeppnina vera internetið, því þurfi þeir alltaf að vera á tánum með að eiga sínar vörur til á lager.

„Músíkmátturinn er mikill og við trúum að tónlist sé fyrir alla og gefi öllum eitthvað. Heimurinn hefur minnkað mikið og nú er okkar helsta samkeppni internetið. Við þurfum því alltaf að vera á tánum með að eiga vöruna til, vera samkeppnisfær í verði og veita góða þjónustu,“ er haft eftir Arnari framkvæmdastjóra Hljóðfærahússins í tilkynningunni.

„Þjónustan er það sem skilur á milli okkar og netsins. Persónuleg ráðgjöf og samtal til að finna hvað hentar hverjum og einum er svo mikils virði. Við leggjum því mest upp úr því,“ segir Arnar ennfremur.

Mikið ábyrgðarhlutverk

Hljóðfærahúsið var stofnað árið 1916 og er elsta hljóðfæraverslun landsins. Það veltir um 500 milljónum á ári.

„Það er mikið ábyrgðarhlutverk að halda utan um þetta gamla rótgróna vörumerki. Þessi 106 ára gamla verslun er hornsteinn í íslenskri menningu. Það er okkar hlutverk að sjá til þess að verslunin þróist með tímanum og standist samkeppnina,“ er haft eftir Arnari.

Kapparnir hafa unnið saman í Hljóðfærahúsinu í um 15 ár en eru einnig saman með Pollapönk, Dr. Mugison, Dr. Spock, Jónas Sig og Ensími. Þeir segja mikið hafa breyst í Hljóðfærahúsinu á síðustu árum.

„Við höfum báðir unnið hjá versluninni í um 15 ár og á þeim tíma hefur heimurinn gjörbreyst. Við höfum verið að breyta versluninni allan tímann og höfum mikla trú á að verslunarrekstur sem þessi eigi eftir að lifa og dafna svo framalega sem hlúð er að honum með natni."

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK