„Við erum með belti, axlabönd og svitaband“

Þorvaldur segir Niceair fara mjög varfærnislega af stað.
Þorvaldur segir Niceair fara mjög varfærnislega af stað.

Stofnun Niceair er endapunkturinn á mjög langri vegferð hjá þeim sem að flugfélaginu standa, en markaðsrannsóknir hófust fyrir tveimur árum, rétt áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Þetta segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, í samtali við mbl.is. 

Niceair stefnir á millilandaflug frá Akureyri, en fyrst um sinn verður flogið til Bretlands, Danmerkur og Spánar. Áætlað jómfrúarflug félagsins verður þann 2. júní næstkomandi.

Markaður fyrir 18 flug á viku

Þorvaldur segir niðurstöður rannsókna sýna fram á næga eftirspurn eftir millilandaflugi til og frá Akureyri, bæði af hálfu heimamanna og erlendra ferðamanna.

„Miðað við okkar rannsóknir og hóflegar forsendur, mjög hóflegar forsendur, bæði um sætanýtingu og nýtingu heimamanna á fluginu, þá teljum við að það sé markaður fyrir níu flug í viku frá Akureyri.

Og okkar áfangastaðasérfræðingar erlendis, sem við höfum verið í samstarfi við, þeir meta það sem svo að Norðurlandið ætti að vera markaður fyrir að minnsta kosti níu flug í viku frá Þýskalandi, Danmörku og Bretlandi. Þetta eru átján flug á viku og ef við ætlum að fara að stað með fjögur til fimm flug í viku, er það ekki bara frekar róleg byrjun?” spyr Þorvaldur og svarar sér sjálfur játandi.

Keyrðar hafi verið þrjár mismunandi kannanir á heimamarkaði, varðandi áhuga heimamanna og mögulega eftirspurn. Þær hafi skilað þeim niðurstöðum að heimamenn meti sparnað sinn að fljúga frá Akureyri að minnsta kosti 32 þúsund krónur á hvert flugfar, að sögn Þorvaldar.

Bara ein vél til að byrja með

Hann segir mikilvægt að horfa ekki bara í kostnað við flugið sjálf. Það sé lítill sparnaður í því að bóka sér ódýrt hoppflugfargjald frá Keflavík en eiga svo eftir að koma sér frá Norður- eða Austurlandi með tilheyrandi kostnaði. Kannanir sýni að fólk sé að horfa á heildarmyndina þegar kemur að kostnaði.

„Þetta er okkar nálgun á þetta. Við erum búin að rannsaka og fyrst rannsökum við áður en við tökum önnur skref, eins og að velja lit á flugvélarnar. Eru kaupendurnir þarna, er eftirspurnin þarna? Það er stóra spurningin,“ segir Þorvaldur.

Það sé engu að síður farið mjög varfærnislega af stað. „Já, við erum með belti, axlabönd og svitaband,” segir hann kíminn, en félagið hefur fest sér  Airbus A319 flugvél á langtímaleigu mbog verður það eina vélin sem félagið hefur til umráða fyrst um sinn. Ekkert hefur verið ákveðið um framhaldið.

„Það verður bara ein vél til að byrja með. Við erum að fara rosalega varlega. Við erum bara að fara fetið og birtum ekki einhverjar áætlanir um stækkun flota eða guð má vita hvað. Það bíður síns tíma.“

Mikilvægt að dreifa ferðamönnum

En það verða ekki bara heimamenn sem koma til með að njóta góðs af millilandaflugi frá Akureyri. Þorvaldur segir rannsóknir sýna að 70 prósent endurkomufarþega til landsins vilji komast beint út á land án þess að þurfa að fara í gegnum Keflavík.

Þá bendir á mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið enda hafi mikill ágangur verið á Gullfoss og Geysissvæðið og Suðurlandið allt. „Minnkar það ekki með því að opna aðra gátt inn í landið? Þannig að fólk geti komist til Íslands án þess að þurfa að fara um Keflavík.“

Vantar hótelrými en það verði leyst

Aðspurður hvort ferðaþjónustan á Norðurlandi sé í stakk búin til að taka á móti auknum fjölda ferðamanna, telur hann svo vera. Vandinn sé aðallega skortur á hótelrýmum, en það verði hægt að leysa.

„Framboð á afþreyingu hefur tekið stórt stökk og það hefur mikil uppbygging í kófinu, en það vantar hótelrými.“

Þorvaldur telur þó að skortur á hótelrýmum muni ekki koma í veg fyrir frekari uppbyggingu Niceair. Hægt sé horfa til fordæmis á Suðvesturlandi þar sem gistirými hafi ekki verið til staðar þegar farþegafjöldi jókst. 

„Það sem gerðist var að allir og amma þeirra voru komnir með túrista í alls kyns húsnæði í kjallaranum, í airbnb. Menn fóru að breyta bílskúrum þangað til menn fóru alla leið í að byggja ofboðslega mikið af hótelum þangað til menn héldu að það væri orðið alltof mikið af hótelrýmum í borginni. Þetta er bara ferli sem er að fara að eiga sér stað hérna fyrir norðan. Við erum búin að sjá fyrirmyndina og vitum sirka hvernig ferlið getur verið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK