Guðjón Leifsson hefur verið ráðinn forstöðumaður á þjónustu- og rekstrarsviði Isavia. Hlutverk hans verður að byggja upp faglega miðju á sviðinu fyrir rekstrargreiningar, breytingastjórnun og bestun á ferlum. Þá mun hann leiða vinnu við faglega og samræmda verkefnastjórnun ásamt því að stýra stórum þverfaglegum verkefnum. Greint er frá þessu í tilkynningu frá félaginu.
Guðjón starfaði áður hjá Marel sem „digital strategy manager“ og stýrði þar fjölbreytilegum verkefnum tengdum starfrænni vegferð fyrirtækisins. Þar áður starfaði hann hjá Símanum til fjölda ára þar sem hann stýrði nýsköpun, vöru- og verkefnastýringu, og þjónustu fyrir einstaklingsmarkað, auk þess að leiða vinnu sem stuðlaði að umbreytingu á menningu, stjórnun og vinnulagi fyrirtækisins.