Íslensk fyrirtæki hafa reynst mun nýjungagjarnari í starfsemi sinni en fyrirtæki annarra Norðurlanda á árunum, ef marka má alþjóðlega mælingu. Meirihluti íslenskra fyrirtækja vann að nýjungum í starfsemi sinni sem voru markaðssettar eða innleiddar í starfsemina á tímabilinu 2018-2020
Um 74% fyrirtækja hér á landi teljast nýjungagjörn, samanborið við 63% fyrirtækja í Noregi, 55% fyrirtækja í Svíþjóð og 48% fyrirtækja í Danmörku, að því er fram kemur í tilkynningu Hagstofu.
Báru fyrirtæki í upplýsinga- og fjarskiptageiranum höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki í mælingunni hér á landi, en þar voru alls 86% fyrirtækja nýjunagjörn. Þar á eftir komu fyrirtæki í fjármála- og vátryggingastarfsemi en þar var hlutfallið 81%, og þar á eftir komu fyrirtæki í matvæla- og drykkjavöruiðnaðinum þar sem hlutfallið var 76%.
„Hlutfallslegar breytingar á milli tímabila voru mestar í fjármála- og vátryggingastarfsemi, upplýsingum og fjarskiptum og matvæla og drykkjavöruiðnaði þar sem aukning var á bilinu 20-30 prósentustig. Rétt er þó að hafa í huga að skilin á milli vöru og þjónustu eru að mestu leyti háð huglægu mati svarenda.
Fyrirtæki töldust einnig vera nýjungagjörn ef merkjanlegar breytingar voru innleiddar í starfsemi þeirra sem átti við um 68% íslenskra fyrirtækja. Það átti einnig við um fyrirtæki sem unnu að þróun nýs varnings eða þjónustu á tímabilinu sem ekki fór á markað en það náði til 51% fyrirtækja,“ segir í tilkynningunni.