Malbikstöðin mun koma til með að kaupa allt að milljón rúmmetra af hreinsuðu metangasi árlega en samningur þess efnis hefur verið undirritaður af fulltrúum hennar og Sorpu. Mun keypt magn af gasinu samsvara um helmingi af afkastagetu GAJU, gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu, að því er fram kemur í tilkynningu fyrirtækjanna.
Vilhjálmur Þór Matthíasson, framkvæmdastjóri Malbikstöðvarinnar segir fyrirtækið ávallt hafa lagt sig fram við að hafa starfsemina sem umhverfisvænsta. Til að mynda hafi endurvinnslustöð fyrir malbik verið komið á fót árið 2012, á þeim tíma sem enginn hafði áhuga á grænu malbiki.
„Nýja stöðin sem við byggðum svo upp að Esjumelum 2020 var reist með það fyrir augum að nota metan við framleiðsluna. Ég hafði áður séð mynd í fjölmiðlum þar sem verið var að brenna umframmagn sem var ekki hægt að koma í vinnu.
Þá vissi ég strax að metan sem orkugjafi væri eitthvað sem þyrfti að koma inn í framleiðsluferli Malbikstöðvarinnar. Þessi tímamótasamningur við Sorpu gerir okkur kleift að nota dýrmætu orku til að framleiða og leggja áfram hágæða malbik – grænasta malbikið á landinu,“ er haft eftir Vilhjálmi í tilkynningunni.
Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri Sorpu, segir samninginn mikilvægan byggðasamlaginu.
„GAJA er stærsta loftslagsverkefni sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu síðan heitt vatn leysti olíu og kol af hólmi við húshitun. Innleiðing hringrásarhagkerfisins er á fullri ferð hjá SORPU og er þessi samningur hluti af því.
Föngun og nýting metans frá lífrænum úrgangi á urðunarstað og í GAJU er gríðarlega mikilvægt loftslagsmál. Metan er 80 sinnum skaðlegra en koltvísýringur þegar það sleppur út í andrúmsloftið og því afar mikilvægt að vinna lífrænan úrgang með réttum hætti í GAJU til að koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Nýting metansins felur svo í sér enn aukinn ávinning,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.