Mesti hagnaður Landsvirkjunar frá árinu 2009

Verð til stórnotenda hækkaði mikið á árinu sem leið og …
Verð til stórnotenda hækkaði mikið á árinu sem leið og ræður þar mestu hækkandi heimsmarkaðsverð á áli sem er nú í hæstu hæðum. mbl.is/Sigurður Bogi

Hagnaður Landsvirkjunar á nýliðnu ári nam 148,6 milljónum dollara, jafnvirði 19,3 milljarða króna. Hefur fyrirtækið ekki skilað jafn miklum hagnaði síðan 2009 þegar hann nam tæpum 200 milljónum dollara. Tvöfaldast hagnaðurinn nánast milli ára en hann nam 78,6 milljónum dollara árið 2020.

Rekstrartekjurnar námu 558,8 milljónum dollara, jafnvirði 72,6 milljarða króna og hafa aldrei í sögunni verið meiri. Jukust þær um 105,3 milljónir dollara, eða 23,3% frá árinu 2020.

„Eftir óvissu og erfiðleika í rekstrarumhverfi fyrirtækisins í byrjun veirufaraldursins á árinu 2020 varð mjög jákvæð þróun á rekstri Landsvirkjunar á árinu 2021,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, í tilkynningu sem fylgdi ársuppgjöri þess.

„Bætta afkomu má rekja til mikils bata í rekstrarumhverfi stórnotenda viðskiptavina okkar og Landsvirkjunar sjálfrar.“ Bent hefur verið á að hrávöruverð og m.a. álverð hefur rokið upp á síðustu mánuðum, miðað við það sem var í upphafi faraldursins. Hefur það skilað álverum hér á landi stórbættri afkomu og raunar snúið gegndarlausum taprekstri í hagnað. Stórir samningar Landsvirkjunar eru tengdir heimsmarkaðsverði á áli og því koma þessar sviptingar fram í bókum fyrirtækisins.

Hörður nefnir einnig að selt heildarmagn rafmagns hafi aukist um 5% á árinu 2021, borið saman við 2020. Þá hafi raforkukerfið á Íslandi verið fulllestað undir lok síðasta árs og eftirspurn verið mikil frá fjölbreyttum hópi viðskiptavina.

Skuldar 195 milljarða

Nettó skuldir Landsvirkjunar námu 1.500,8 milljónum dollara í lok síðasta árs, jafnvirði 195,1 milljarðs króna. Lækkuðu þær um 175 milljónir dollara, jafnvirði 22,8 milljarða króna.

„Helstu skuldahlutföll eru nú orðin sambærileg og þau eru hjá systurfyrirtækjum okkar á Norðurlöndunum, sem er árangur sem við erum stolt af. Lykilmælikvarðinn nettó skuldir/EBITDA lækkaði umtalsvert á síðasta ári og eru hreinar skuldir nú aðeins um 3,5-faldur rekstrarhagnaður fyrir afskriftir. Ekki er því lengur þörf á að leggja áherslu á hraða lækkun skulda og hefur arðgreiðslugeta fyrirtækisins þar af leiðandi aukist,“ segir Hörður.

Af þeim sökum hefur stjórn fyrirtækisins ákveðið að leggja til við eiganda sinn, íslenska ríkið, að greiddur verði út arður sem nemi 15 milljörðum króna vegna reksturs síðasta árs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK