Upplýsingum um viðskiptavini svissneska bankans Credit Suisse hefur verið lekið. Um er að ræða u.þ.b. þrjátíu þúsund viðskiptavini sem eiga ríflega eitt hundrað milljarða franka í bankanum.
Upplýsingunum var lekið af ónefndum uppljóstrara innan bankans og síðan sendar á þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung. Haft er eftir uppljóstraranum að hann telji svissnesk lög um leynd bankaupplýsinga vera ósiðleg. Süddeutsche Zeitung er eflaust mörgum kunnuglegt en blaðið átti stóran hlut í Panamaskjölunum svokölluðu.
Fjölmargir miðlar, víða um heiminn, tóku þátt í vinnslu gagnanna en að þessu sinni er enginn íslenskur miðill á meðal þeirra. Ólíklegt er að upplýsingar um Íslendinga séu að finna í lekanum þar sem Credit Suisse hefur enga starfsemi hér á landi.
The Guardian er einn þeirra fjölmiðla sem fjallað hefur ítarlega um málið.
Marga umdeilda aðila er að finna meðal viðskiptavina Credit Suisse. Má þar nefna Ronald Li Fook-shiu, fyrrum yfirmann kauphallarinnar í Hong Kong, sem sat í fangelsi um árabil vegna mútuþægni, sænska forritarann Stefan Sederholm, sem var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir mansal á Filippseyjum, og aðila með tensl við hina ýmsu einræðisherra á borð við Ferdinand Marcos heitinn.
Í gögnunum er einnig að finna upplýsingar um bankareikning Vatíkansins, sem benda til þess að Vatíkanið hafi varið 350 milljón evrum, jafnvirði rúmlega 49 milljarða íslenskra króna, í vafasama fjárfestingu í London.