Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur staðfest að fyrirtækið skoðar nú möguleika á því að skrá lúxusbílaframleiðandann Porsche á markað í tengslum við frumútboð með hluti í fyrirtækinu.
Forsvarsmenn fyrirtækisins eru í viðræðum við stærsta hluthafa sinn, Porsche SE, um möguleikann á útboði og skráningu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi frá sér nú í morgun.
Porsche varð hluti af Volkswagen samstæðunni árið 2012 í öfugum samruna í kjölfar þess að Porsche mistókst að ná yfirráðum í Volkswagen.
Financial Times rifjar upp í ljósi tíðinda dagsins að þrýstingur hafi farið vaxandi á Volkswagen að losa um hlut sinn í fyrirtækinu til þess að greiða fyrir þeirri miklu fjármögnun sem fyrirtækið stendur frammi fyrir að leggja út í vegna rafvæðingar framleiðslu sinnar.
Í dag er markaðsvirði Porsche metið á um 110 milljarða evra, ríflega 15.600 milljarða króna. Hins vegar hefur verið bent á að ef sömu margfaldarar yrðu notaðir á virði fyrirtækisins og gert er með samkeppnisaðila þess, fyrirtæki á borð við Ferrari, gæti markaðsvirðið verið nær 200 milljörðum evra, eða 28.400 milljarðar króna.
Bílabúð Benna er með umboðið fyrir Porsche á Íslandi.