Miklar breytingar verða á starfsemi Góða hirðisins og Sorpu um næstu áramót. Þá verður verslun Góða hirðisins ásamt skrifstofum Sorpu flutt að Köllunarklettsvegi 1, í gamla húsnæði Kassagerðar Reykjavíkur. Verslun Góða hirðisins í Fellsmúla verður lokað en húsnæði þeirrar verslunar þótti vera orðinn flöskuháls í starfseminni. Nýja verslunin við Köllunarklettsveg verður ríflega þrjú þúsund fermetrar, tvöfalt stærri en sú gamla.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Góði hirðirinn er sprunginn á núverandi stað og húsnæðið er slæmt. Við viljum að starfsmenn geti verið í góðu húsnæði svo þeir geti blómstrað í sínum störfum en það er greinilega þörf á þessari starfsemi samhliða aukinni umhverfismeðvitund hjá fólki. Þarna eru mikil verðmæti. Við viljum útvíkka starfsemi Sorpu og stækka Góða hirðinn. Ég vil skoða það að fjölga búðunum enn frekar og opna til dæmis í Hafnarfirði og Kópavogi,“ segir Líf Magneudóttir, stjórnarformaður Sorpu.
Hús Kassagerðarinnar fær andlitslyftingu við þetta tækifæri. Skrifstofuhluti þess verður stækkaður og verður heildarstærð húsnæðisins um 12 þúsund fermetrar. Eigendur hússins vilja byggja þar upp klasa á sviði sjálfbærni, hringrásar og loftslagsmála. Hermt er að einkafyrirtæki hafi sýnt áhuga á þessum hugmyndum og hafi hug á að koma sér þar fyrir. Engar frekari upplýsingar fást þó um það að svo komnu máli.