Engar flugferðir í leiðakerfum íslensku flugfélaganna Play og Icelandair fara um rússneska lofthelgi og mun því bann Rússa, er varðar flug evrópskra flugfélaga í gegnum lofthelgi þeirra, ekki hafa áhrif á bein áhrif á ferðir félaganna.
Aftur á móti gæti bannið haft áhrif á starfsemi Icelandair þar sem ekki verður lengur í boði að bóka á vefsíðu þeirra sammerkt flug sem eru á vegum erlendra flugfélaga sem fara í gegnum lofthelgina. Um er að ræða tengiflug þar sem millilent er á Íslandi áður en haldið er á aðra áfangastaði.
Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair í svari við fyrirspurn mbl.is.
Til að mynda var hægt að bóka slíkt flug í gær, til Moskvu í apríl, í gegnum vef Icelandair. Sá valmöguleiki er ekki lengur til staðar.
Í gær tilkynnti rússneska flugumferðarstjórnin Rosaviatsia að búið væri að banna flugferðir flugfélaga frá 36 Evrópulöndum í gegnum lofthelgi landsins, en þar á meðal er Ísland.
Mun fjöldinn allur af flugfélögum víða í Evrópu þurfa að endurskipuleggja flugleiðir til að forðast rússnesku lofthelgina.
Ákvörðun Rússa var kynnt um sólarhring eftir að Evrópusambandið og önnur lönd innan Evrópu sem heyra ekki þar undir kynntu sambærilegar aðgerðir gegn Rússum, en Ísland var eitt þeirra.