Kaup rafmynta með rúblum hafa náð nýjum hæðum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu og hefur það vakið spurningar um hvort rafmyntir eins og Bitcoin gætu verið leið stjórnvalda í Moskvu framhjá efnahagsrefsiaðgerðum umheimsins.
Bandaríkin og Vesturlönd hafa lagst á eitt í hörðum efnahagslegum refsiaðgerðum sem beinast að rússneskum bönkum og öllum viðskiptum þeirra með rúbluna.
Þau hafa útilokað stóra rússneska banka frá SWIFT-bankakerfinu og þannig einangrað þá frá alþjóðlegum viðskiptum, sem var ætlunin. Þessar aðgerðir og bann viðskipta við Seðlabanka Rússlands hefur valdið miklum erfiðleikum í rússneska hagkerfinu.
Rúblan hefur lækkað um 27% gagnvart bandaríkjadal og nú kostar yfir 100 rúblur að kaupa einn dal, sem er verri staða en áður hefur sést.
Rússar hafa nýtt sér rafmyntir sem leið í kringum efnahagsþvinganirnar enda eru rafmyntir ekki beintengdar við neina samræmda bankastarfsemi og þess vegna hægt að stunda bein viðskipti án eftirlits. Rafmyntaupplýsingaveitan Kaiko hefur tilkynnt met í kaupum á Bitcoin í rúblum frá því að innrásin hófst í síðustu viku.
Önnur tegund rafmyntar sem verið er að horfa til vegna innrásarinnar, er Tether, sem er svokallaður fastgjaldmiðill (stablecoin), en hún er beintengd við bandaríkjadollar og er því ekki jafn óstöðug og hefðbundnar rafmyntir.
Kaup á Tether hafa aukist talsvert eftir innrásina segir Clara Medalie, yfirrannsakandi hjá Kaiko í samtali við AFP fréttaveituna.
Erfitt er að segja til um hvort rafmyntir séu langtímalausn gegn refsiaðgerðum því stjórnvöld geta strangt til tekið krafið þá sem versla með rafmyntir um að takmarka aðgengi ákveðinna aðila svo ekki sé hægt að komast framhjá efnahagsþvingunum.
Mykhaílo Fedorov, aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu, kallaði eftir því á Twitter að söluaðilar rafmynta lokuðu á rússneska kaupendur, og talið er að í Bandaríkjunum sé verið að skoða þann möguleika.
Greinendur hjá Chainanalysis sögu að það væri bjartsýni að ímynda sér að rafmyntir gætu bjargað Rússum frá efnahagsrefsiaðgerðunum.
Þar var bent á að bálkakeðjur sem notaðar eru í yfirfærslu lögeyris eins og dollars og annarra hefðbundinna gjaldmiðla væru rekjanlegar og þannig gætu vestræn ríki haft eftirlit með því sem fram færi og hvort það samræmdist lögum eða yfirlýstum refsiaðgerðum.
En á sama tíma hafa bæði Norður-Kórea og Íran nýtt sér rafmyntir til að komast í kringum efnahagsrefsiaðgerðir. Norður-Kórea hefur efnast um milljarða dollara í gegnum netárásir og Íran hefur notað ódýra orku í námuvinnslu Bitcoin.
En það gæti reynst erfitt fyrir Rússa að reyna að selja grundvallarútflutningsvarning sinn, eins og hveiti, olíu og gas í gegnum rafmyntir því eins og bent hefur verið á er erfitt að framkvæma mjög stórar færslur því magn Bitcoin og annarra rafmynta sé ekki nægilegt fyrir mjög stórar viðskiptafærslur.
Bitcoin og aðrar rafmyntir hafa hækkað frá innrásinni, en ekki bara vegna aukinnar fjárfestingar Rússa.
Úkraínska ríkisstjórnin hefur frá síðasta laugardegi fengið 17,1 milljón dollara í gegnum rafmyntir eftir ákall um fjárhagsstuðning, segja greinendur hjá Elliptic. Þó er sagt að rúblan sé afar lítill hluti á rafmyntamarkaðnum og hafi enn lítil áhrif.