Stefna á opnun fyrir páskana

Byggingar eru samtals um 850 fermetrar að flatarmáli og laugar …
Byggingar eru samtals um 850 fermetrar að flatarmáli og laugar um 500 fermetrar.

Opnun Skógarbaðanna við rætur Vaðlaheiðar, austan megin í Eyjafirði, hefur verið frestað, en upphaflega stóð til að opna böðin 11. febrúar sl.

Sigríður María Hammer, sem á 51% hlut í böðunum ásamt eiginmanni sínum, Finni Aðalbjörnssyni, vonast til að geta opnað böðin fyrir páska. Hún segir að ástæða seinkunarinnar séu vandamál í alþjóðlegri aðfangakeðju vegna Covid, en tafist hefur að fá glugga og annað byggingarefni til landsins.

Nú á dögunum var vatni hleypt í fyrsta skipti á böðin og gekk sú aðgerð vonum framar að sögn Sigríðar. Vatninu hefur nú verið hleypt á aftur.

„Við vorum að athuga hvort allt virkaði sem skyldi. Við vildum sjá hvort við hefðum nægilegt vatn, hvort hitastigið væri rétt og allar tengingar í lagi. Það þurfti líka að skola úr pípunum sem eru 2,6 kílómetra langar og liggja úr Vaðlaheiðargöngum. Þetta var mikill áfangi fyrir okkur. Án vatns er erfitt að fara í bað,“ segir Sigríður og brosir.

Jafnt hitastig í allri lauginni

Eins og Sigríður útskýrir þurfti að mæla vandlega vatnsdreifinguna í böðunum og hvort hitastig væri jafnt í allri lauginni. Kantar laugarinnar eru allir beinir og vatn rennur yfir þá alls staðar, að sögn Sigríðar. „Þetta er millimetraspursmál. Þetta var allt upp á tíu.“

Unnið er að ýmsum frágangi þessa dagana að sögn Sigríðar, eins og að setja upp lýsingu.

Nokkrar breytingar hafa orðið á byggingunni á framkvæmdastiginu að sögn Sigríðar. „Verkefnið hefur stækkað töluvert frá upphaflegum áætlunum. Núna er gert ráð fyrir 200 gestum á hverjum tíma í böðin. Við erum með 200 skápa auk fimm skápa fyrir fatlaða einstaklinga sem geta verið í sér klefa. Húsið sjálft hefur líka stækkað á framkvæmdatímanum. Byggingar eru samtals um 850 fermetrar að flatarmáli og laugar um 500 fermetrar.“

Spurð að því hvort Skógarböðin séu sýnileg frá Akureyri, segir Sigríður að þeir sem viti hvar þau eru staðsett ættu að geta séð þau yfir fjörðinn. „Við höfum vandað okkur vel við að fella böðin inn í skóginn og landið. Kletturinn í fjallshlíðinni á bak við okkur fellur inn í húsið. Það verður gras á þakinu og hluti af húsinu eru forsteyptar einingar sem líta út eins og klettur. Þá er húsið timburklætt.“

Algjört logn inni í skógi

Skógarböðin bætast í hóp annarra baða á Norður- og Austurlandi. Fyrir eru sjóböðin á Húsavík, Jarðböðin á Mývatni og Vök á Egilsstöðum. Athygli vekur að sömu hönnuðir eru að öllum böðunum, Basalt arkitektar. „Okkar sérstaða er að við erum inni í skógi og þarna er algjört logn. Svo bjóðum við upp á einstakt útsýni yfir á Akureyri og inn og út Eyjafjörðinn, einn lengsta fjörð á Íslandi.“

Í Skógarböðunum verður boðið upp á ljúffengar veitingar, að sögn Sigríðar. „Þetta verður mjög kósí með logandi eldi í hringlaga arni. Svo verðum við með léttar veitingar, kaffi, kökur og snittur en einnig verður Happy Hour og kokkteilar í boði.“

Gestir geta setið við hringlaga arin og notið léttra veitinga.
Gestir geta setið við hringlaga arin og notið léttra veitinga.

Sigríður vonast til að Akureyrarbær klári eins fljótt og kostur er tengingar göngu- og hjólastíga bæjarins við Skógarböðin. „Þetta er gott útivistarsvæði og böðin verða lyftistöng fyrir svæðið. Með tilkomu baðanna eykst úrval afþreyingar fyrir ferðamenn og heimamenn.“

Nýr framkvæmdastjóri

Sigríður segir, spurð um opnunartímann, að stefnt sé að því að hafa böðin opin frá klukkan 10 á morgnana til miðnættis. „Annars verður það eitt af fyrstu verkefnum Tinnu Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra þegar hún kemur til starfa nú um mánaðamótin að ákveða það.“

Skógarböðin eru við rætur Vaðlaheiðar, austan megin í Eyjafirði. Þau …
Skógarböðin eru við rætur Vaðlaheiðar, austan megin í Eyjafirði. Þau eru umlukin skógi og falla vel inn í umhverfið.

Skógarböðin eru eins og fyrr sagði að meirihluta í eigu Sigríðar og eiginmanns hennar í gegnum félagið N10 b ehf. Aðrir hluthafar eru Birkir Bjarnason fótboltamaður sem á 13% hlut í gegnum félag sitt Bjarnason Holding ehf., Höldur bílaleiga, Vað ehf., Rafeyri ehf., N 10 ehf. og Finnur ehf.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK