Horn IV fjárfestir í S4S

Pétur Þór Halldórsson.
Pétur Þór Halldórsson. Ljósmynd/Aðsend

Framtakssjóðurinn Horn IV slhf. hefur gengið frá kaupum á hlut í fyrirtækinu S4S ehf. sem rekur verslanirnar Steinar Waage, Kaupfélagið, Ecco, Skechers og Toppskóinn, ásamt AIR verslununum og Ellingsen í Reykjavík og á Akureyri. Dótturfélag fyrirtækisins er S4S tæki ehf. sem rekur tækjasölu og verkstæði BRP Ellingsen. Velta samstæðunnar árið 2021 voru tæpir fimm milljarðar króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá S4S.

Eftir viðskiptin mun Horn IV eiga 22% hlut í félaginu en við kaupin voru annars vegar keyptir hlutir af núverandi hluthöfum og hins vegar var hlutafé hækkað og skrifaði Horn IV sig fyrir allri þeirri hækkun. Eftir sem áður eru Pétur Þór Halldórsson, forstjóri félagsins, og Sjávarsýn ehf., eignarhaldsfélag Bjarna Ármannssonar, stærstu hluthafar félagsins.

„Við hjá S4S erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu og hlökkum til að starfa með Horni IV að áframhaldandi uppbyggingu og rekstri félagsins. [...] Við ætlum að vaxa enn frekar, styrkja innviði fyrirtækisins og halda þannig áfram að veita viðskiptavinum okkar frábæra þjónustu. Horn framtakssjóður er góður ferðafélagi fyrir okkar vegferð og mun hann leggja sitt af mörkum við að styrkja og efla starfsemi félagsins enn frekar á jákvæðan hátt fyrir fyrirtækið í heild, starfsfólk þess og viðskiptavini,“ segir Pétur Þór Halldórsson forstjóri S4S.

Horn IV er 15 milljarða framtakssjóður í rekstri Landsbréfa sem fjárfestir í óskráðum íslenskum fyrirtækjum með góða rekstrarsögu. Auk þess er lögð áhersla á að fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í tileinki sér sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni og mun sjóðurinn styðja félögin í að ná umbótum á sviði UFS-þátta. Sjóðurinn hóf starfsemi á árinu 2021 og yrði þetta önnur fjárfesting sjóðsins en fjárfestingartímabil hans er til loka júlí 2025.

Fjármálaráðgjöf Deloitte hafði umsón með söluferlinu og fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi kaupanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK