Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir áætlað að 4,6 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll í ár, sem yrði ríflega tvöföldun milli ára. Þetta ár verði eitt mesta framkvæmdaár í sögu Isavia.
Árið 2019 fóru 7,25 milljónir farþega um völlinn en um 1,38 milljónir farþega árið 2020. Þeim fjölgaði svo í 2,17 milljónir í fyrra, sem var um 60% aukning milli ára, og forsendur Isavia gera ráð fyrir að fjöldinn muni ríflega tvöfaldast í ár, í 4,6 milljónir. Til samanburðar fóru 4,86 milljónir farþega um völlinn árið 2015, sem var þá metár, en 9,8 milljónir metárið 2018.
Ýtarlega er rætt við Sveinbjörn um stöðu Isavia í miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans í dag.
Eiginfjárhlutfall Isavia var 45% þegar tekjur félagsins hrundu í kórónuveirufaraldrinum. Það fór í um 34% í lok árs 2020, áður en fjármálaráðherra tók ákvörðun um að auka hlutafé félagsins um 15 milljarða, og um síðustu áramót var það komið í tæplega 42%.
Sveinbjörn segir EBITDA-hlutfall félagsins hafa verið neikvætt um tæpan milljarð í fyrra. Þá hafi afkoma móðurfélags Isavia, sem fer með rekstur Keflavíkurflugvallar, verið milljarði lakari á þennan mælikvarða.
„Raunar þarf EBITDA að fara nokkuð yfir þrjá milljarða til að reksturinn vinni bara fyrir afskriftum af innviðum Keflavíkurflugvallar. Við sjáum þannig fyrir okkur, miðað við núverandi forsendur, að árið 2024 verði fyrsta árið sem flugvöllurinn skili jákvæðri afkomu af hefðbundnum rekstri eftir að faraldurinn hófst,“ segir Sveinbjörn um horfurnar.