Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, boðar aðgerðir til að auðvelda erlendum sérfræðingum að setjast að á Íslandi og starfa hjá íslenskum fyrirtækjum. Þetta kom fram í ræðu hennar á Iðnþingi í dag.
Ráðherrann vék meðal annars að mikilvægi orkuskipta í glímunni við loftslagsvandann.
„Við þurfum - og munum - leggja höfuðáherslu á orkuskipti í vegasamgöngum, sjávarútvegi og flugsamgöngum. Okkur hefur gengið vel hvað varðar nýskráningar raf- og tengiltvinnbíla, þar sem við erum í öðru sæti á eftir Norðmönnum.
En betur má ef duga skal. Við höfum stutt við innviðauppbyggingu fyrir rafbíla og í höfnum landsins, en eigum þó enn eitthvaðð í land í þeim efnum, og við þurfum að huga að þungaflutningum og bíla- og vinnuvélaflota fyrirtækja. En þessar lausnir eiga sumar hverjar eftir að koma fram, en því hagstæðara sem umhverfið er fyrir iðnað og nýsköpun því fyrr munum við sjá þær lausnir.“
„En við þurfum líka að þora að hugsa út fyrir kassann. Ríkisstjórnin hefur mótað skýra stefnu um endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar, ívilnunum til grænna fjárfestinga og efla grunnsjóði í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum.
Við viljum auðvelda íslenskum fyrirtækjum að ganga að nauðsynlegri sérfræðiþekkingu og í því skyni verður erlendum sérfræðingum auðveldað að setjast að hér á landi og starfa hjá íslenskum fyrirtækjum. Allt eru þetta skref í því að gera umhverfið betra og einfaldara,“ sagði Áslaug Arna meðal annars.
„En ég þarf ekki að standa hér og þylja yfir ykkur hvar skóinn kreppir í þessum efnum. Eins og við vitum, og ég hef áður nefnt hér, þá er það ekki hjá stjórnvöldum sem lausnirnar verða til, heldur reynir fyrst og fremst á frumkvæðið og kraftinn sem býr í íslensku atvinnulífi.“