„Nýtt járntjald í formi harðra viðskiptahindrana bítur rússneskan efnahag fast, en gleymum því ekki að áhrifin verða sömuleiðis mikil á Evrópu alla, fyrirtæki jafnt sem einstaklinga,“ sagði Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, í ræðu á Iðnþingi í Hörpu í dag.
Árni hóf ræðu sína á að ræða innrás Rússa í Úkraínu.
„Hvort þetta sé byrjunin á nýju ófriðarskeiði í Evrópu eða verði einungis skammvinn áminning um hversu dýrmætt frelsið og friðurinn er okkur öllum, er of snemmt að segja til um. Hvað sem því líður, dvelur hugur okkar Íslendinga og óskoraður stuðningur hjá úkraínsku þjóðinni, sem ver nú frelsi sitt og tilveru með aðdáunarverðum hætti.“
„Við skulum ekki draga neina fjöður yfir það, að áhrifa þessa ófriðar mun vafalítið gæta á mörgum sviðum íslensks atvinnu- og efnahagslífs, þar sem fjölmörg hérlend fyrirtæki hafa tengst þessum löndum sterkum böndum, hvort sem er á grundvelli innflutnings eða útflutnings.
Óbeinu áhrifin verða jafnvel meiri þar sem aðfangakeðja heimsins, sem fyrir var verulega löskuð vegna heimsfaraldursins, þarf nú að leita að nýjum jafnvægispunkti þegar framboð á orku, ýmsum lykilhráefnum og vöruflokkum skerðist verulega eða stöðvast fyrirvaralaust. Áhrif á orku- og eldsneytisverð á heimsmarkaði eru okkur öllum sýnileg. Allt eykur þetta áskoranir okkar allra sem keppumst við að halda verðlagi og lífskjörum eins stöðugum og mögulegt er.“
„En allt er þetta hjómið eitt miðað við þá miklu neyð sem ríkir nú í Úkraínu og hjá þeim tugmilljónum manna, kvenna og barna sem fyrir einungis tveimur vikum síðan gengu til sinna hefðbundnu daglegu starfa. Nú er tími samstöðu og vægi aukins alþjóðasamstarfs eykst stórkostlega, hvort heldur sem er á sviði stjórnmála eða atvinnulífs.
Nýtt járntjald í formi harðra viðskiptahindrana bíta rússneskan efnahag fast, en gleymum því ekki að áhrifin verða sömuleiðis mikil á Evrópu alla, fyrirtæki jafnt sem einstaklinga. Samstöðurödd þjóða þarf að leiða til markvissra aðgerða til að hrinda áhlaupinu og snúa þessu tafli, hratt og örugglega, þannig að varanlegum friði verði komið á að nýju,“ sagði Árni.
Hann vék næst að þeim tækifærum sem Íslendingar standa frammi fyrir í loftslagsmálum og hvernig hin græna iðnbylting, sem væri megin umræðuefni Iðnþingsins, gegni þar lykilhlutverki. Til að ná markmiðum um að draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda þurfi að stuðla að orkuskiptum með grænum lausnum.
„Græna iðnbyltingin er ólík þeim fyrri því hún leiðir beinlínis af ákvörðunum, markmiðum og aðgerðum stjórnvalda. Markmið íslenskra stjórnvalda eru skýr og metnaðarfull: Ísland verði kolefnishlutlaust og óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Til að ná settu marki þarf víðtækt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs. Það er einmitt stjórnvaldanna að setja skýr markmið en atvinnulífsins að finna bestu grænu lausnirnar og leiðina að markmiðunum,“ sagði Árni.
Hægt er að fylgjast með Iðnþinginu hér.